Skrifstofa forseta Íslands sendi frá sér tilkynningu fyrr í dag þar sem hún útskýrði veitingu fálkaorðunnar til danska þingforsetans Piu Kjærsgaard í ljósi reglna, samninga og hefða. Einnig tekur skrifstofan fram að orðunefnd hafi ekki komið nærri orðuveitingu Piu.
Kjarninn hefur áður fjallað um hlutverk Piu á fullveldishátíð Íslands á Þingvöllum síðastliðinn miðvikudag, en þar var hún heiðursgestur og hélt hátíðarræðu fyrir hönd danska þjóðarþingsins. Pia er einn þekktasti stjórnmálamaður Danmerkur í dag og hefur talað hart gegn fjölmenningu, innflytjendum og íslam.
Fréttablaðið greindi svo frá því fyrr í vikunni að forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, hafi veitt Piu stórkross hinnar íslensku fálkaorðu í janúar í fyrra, en orðan var veitt í tilefni af opinberri heimsókn forsetans til Danmerkur. Í kjölfar umfjöllunar um Piu síðustu daga greindi svo kvikmyndargerðarkonan Elísabet Ronaldsdóttir frá því á Facebook-síðu sinni í gær að hún ætli að skila sinni fálkaorðu. Í stöðuuppfærslu sinni sagðist Elísabet ekki geta verið í riddaraklúbbi með kynþáttahatara. Uppfærsluna má sjá hér að neðan.
Þetta er mér hjartans mál og þó það sé ekki alltaf auðvelt að rugga bátnum er það allt of oft bráðnauðsynlegt. Var að...
Posted by Elísabet Ronaldsdóttir on Friday, July 20, 2018
Í fréttatilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands stendur að embættinu sé ljúft að taka fram að um veitingu fálkaorðu gildi ýmsar reglur, samningar og hefðir, líkt og um aðrar orðuveitingar víða í Evrópu. Á Íslandi egi þessar reglur einkum við um opinberar heimsóknir forseta Íslands til hinna norrænu ríkja og opinberar heimsóknir þjóðhöfðingja þeirra til okkar. Einnig er sérstaklega tekið fram í fréttatilkynningunni að á Íslandi komi orðunefnd ekki nærri þessu ferli. Forseti Íslands veiti hina íslensku fálkaorðu en við opinberar heimsóknir ytra sé hún að jafnaði afhent orðuhafa án þess að forseti sé nærri.