Það rigndi hvern einasta dag í maí sem var met í Reykjavík, úrkoman var nær þrefalt meiri en í meðalári. Það hefur aðeins gerst fjórum sinnum áður, frá því mælingar hófust í Reykjavík fyrir meira en hundrað árum síðan, að rignt hafi hvern einasta dag í heilan mánuð. Í ofanálag var svo óvenju kalt líka.
Júní var litlu skárri, aðeins fimm dagar voru þurrir í mánuðinum og úrkomudagafjöldi í júní hefur ekki verið slíkur í Reykjavík nema tvisvar áður, árin 1960 og 1983.
Hámarkshiti ársins í Reykjavík í maí og júní var ekki nema 14,3 stig og hæsta hitatala í júní 13,2 stig.
Þó að nokkrum sinnum hafi sést til sólar í júlí er það þó ekki svo að á höfuðborgarsvæðinu hafi verið nokkuð um samfellda sólardaga.
Ferðaskrifstofurnar finna vel fyrir þessu og eru flestar búnar að selja upp ferðir sínar og sæti til sólarlanda í júlí og jafnvel fram yfir verslunarmannahelgi fram í miðjan ágúst.
Tómas J. Gestsson, framkvæmdastjóri Heimsferða, segir að júlíferðir fyrirtækisins hafi selst upp í júní. Það hafi ekki gerst á tæplega tuttugu ára ferli Tómasar í bransanum að júlí seljist upp áður en júní sé liðinn.
„Það er eitthvað um það að fólk hringi og sé alveg sama hvert það fer, en svo er fólk bara að horfa núna í ágúst mánuð. Ég heyrði í einum í morgun sem fór til spánar í júní. Hann vildi fara bara aftur í ágúst, var búinn að fá nóg af þessu veðri og vildi komast aftur út í ágúst fólk farið að þrá að komast úr rigningunni,“ segir Tómas.
Tómas segir að þetta verði metsumar í sólarlandaferðum. Alls býður fyrirtækið upp á meira en 1.700 sæti í júlí sem öll eru uppseld. Þá séu margir nú þegar farnir að bóka borgarferðir í haust, þó Heimsferðir séu ekki farnar að sjá sama kippinn í bókunum þar og kom í sólarlandaferðunum í júní.
Ingibjörg Elsa Eisteinsdóttir forstöðu kona sólar- og sérferða hjá Gamanferðum tekur í sama streng. Hún segir að þau fái töluvert af símtölum þar sem fólk vilji komast út í sólina bara sama kvöld eða daginn eftir.
„Fólk er alveg greinilega komið með nóg af þessu. Við erum eiginlega að díla við það vandamál núna að það er ekkert laust, það er bara uppselt í næstu brottfarir, uppselt úr landi,“ segir Ingibjörg.
Hún segir fólk jafnvel vera að kaupa dýrari ferðir einfaldlega vegna þarfar fyrir að komast út. Þá séu einnig margir farnir að bóka ferðir fyrir næsta sumar, fólk ætli sannarlega ekki að missa af öðru sumri og taki ekki sénsinn á að tíðin verði með sama hætti og þetta sumarið.