Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hyggst leggja á tolla á fleiri bandarískar innflutningsvörur að andvirði 20 milljarða Bandaríkjadala, fari svo að Bandaríkin tollaleggi innflutta bíla. Þetta sagði viðskiptafulltrúi sambandsins, Cecilia Malmström í viðtali við sænska blaðið Dagens Nyheter í morgun.
Ummæli Ceciliu koma rétt fyrir áætlaðan fund Bandaríkjaforseta Donald Trump við hana og forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Jean-Claude Juncker í Hvíta húsinu seinna í dag. Samkvæmt henni er markmið fundarins að lægja öldur í viðskiptastríði milli Bandaríkjanna og Evrópu, og þá helst að koma í veg fyrir að tollar verði settir á bílainnflutning Vesthanhafs. Í viðtali sínu við Dagens Nyheter segir Cecilia slíka tolla myndu verða mikið áfall fyrir sænskan efnahag og allan heiminn.
Fyrir rúmum mánuði síðan hótaði Donald Trump Evrópusambandinu að innleiða 20% toll á evrópska bíla sem fluttir eru inn til Bandaríkjanna. Í Twitter-færslu sinni, sagðist Trump munu setja á tollinn ef Evrópusambandið dregur ekki tollalagningu sína til baka. Færsluna má sjá hér að neðan.
Based on the Tariffs and Trade Barriers long placed on the U.S. & its great companies and workers by the European Union, if these Tariffs and Barriers are not soon broken down and removed, we will be placing a 20% Tariff on all of their cars coming into the U.S. Build them here!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) June 23, 2018
20 milljarða dala tollar
Samkvæmt Ceciliu myndu slíkir tollar leggjast hart á sænska bílaframleiðendur líkt og Volvo og Scania, en einnig hefðu þeir geigvænleg áhrif á bandaríska bílaiðnaðinn. Jafnframt segir hún að sambandið hafi nú þegar sett saman lista yfir bandarískar vörur sem það hyggst leggja toll á, ef bílatollarnir verða að veruleika. Fyrirhugaðir tollar Evrópusambandsins yrðu að andvirði 20 milljarða Bandaríkjadala.
Aðspurð um hvers konar vörur þetta eru, segir Cecilia þær fyrst og fremst vera landbúnaðarafurðir og vélabúnaður auk annarra vara sem dreifist frekar jafnt á öll aðildarríki sambandsins.
Sammála um Kína
Cecilia sagðist þó ekki vera líta á Bandaríkin sem andstæðing: „Við þekkjum ekki aðra taktík en samræður. Við ætlum að útskýra að ESB er ekki andstæðingur, heldur vinur og bandamaður. Við og Bandaríkin deilum þeirri sýn að Alþjóðaviðskiptastofnunin þurfi að nútímavæðast.“ Sem dæmi nefnir að báðir aðilar séu sammála því að Kína raski alheimsmarkaðnum á stáli með því að niðurgreiða óarðbær ríkisfyrirtæki og farga umframframleiðslu.
„En í staðinn fyrir að beina sjónum sínum að Evrópu og segja að við séum ógn við þeirra innra öryggi, getum við tekist saman á þessi vandamál á heimsvísu,“ segir hún.