Markaðsvirði Facebook hefur minnkað um meira en 11.600 milljarða íslenskra króna eftir afkomuviðvörun frá fjármálastjóra fyrirtækisins. Fallið jafngildir 4,5-faldri landsframleiðslu Íslands, en það er næststærsta fall sögunnar hjá skráðu fyrirtæki á einum degi. Frá þessu er greint á vef The Guardian.
Síðdegis í gær birti samfélagsmiðillinn rekstrarniðurstöðu sína fyrir annan ársfjórðung, en samkvæmt honum hagnaðist fyrirtækið um 5,1 milljón Bandaríkjadala og jókst hann um 42% milli ára. Hagnaðarhlutfallið var 31% og fjöldi daglegra notenda jókst um 11% miðað við sama tímabil í fyrra.
Þrátt fyrir tiltölulega jákvæða rekstrarniðurstöðu urðu fjárfestar fyrir miklum vonbrigðum þar sem búist var við enn betri útkomu, auk þess sem vöxtur daglegra notenda var lítill á stærstu auglýsingamörkuðum félagsins, Bandaríkjunum og Evrópu.
Í kjölfar birtingar uppgjörsins sendi Facebook svo frá sér afkomuviðvörun þar sem fyrirtækið bjóst við enn frekari samdrætti í tekjuvexti félagsins á næstu tveimur ársfjórðungum. Auk þess tilkynnti miðillinn samdrátt í fyrsta skipti samdrátt í fjölda notenda í Evrópu, en þar fækkaði þeim um þrjár milljónir.
Framkvæmdastjóri Facebook, Mark Zuckerberg, segir auknar fjárfestingar fyrirtækisins í öryggismálum hafi mest áhrif á samdrátt tekjuvaxtarins, en fyrirtækið réðst í þær í kjölfar Cambridge Analytica-hneykslisins sem skók fyrirtækið fyrr í ár. Hneykslið snerist um notkun á persónuupplýsingum 87 milljóna manna í auglýsingaskyni, en Zuckerberg þurfti sjálfur að sitja fyrir svörum hjá Bandaríkjaþingi og Evrópuþingi vegna þess.
Taktu alla vöru og þjónustu sem er framleidd á Íslandi á 1 ári: Ráðgjöf, flug, fiskveiðar, bílar, heilbrigðisþjónusta, menntun o.s.frv. Hugsaðu þér hvað það eru mikil verðmæti, ekki bara á 1 ári heldur 6 árum.
— Konráð S. Guðjónsson (@konradgudjons) July 26, 2018
Þá veistu hve miklu Facebook tapaði af virði sínu á 1 klukkutíma.
Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, vakti athygli á stóru tapi Facebook í Twitter-færslu í gærkvöldi, en þá hafði hlutabréfaverð samfélagsmiðilsins lækkað um 24% rétt eftir afkomuviðvörun þess. Með því lækkaði markaðsvirði fyrirtækisins um 15.300 milljarða íslenskra króna, en það jafngildir sexfaldri landsframleiðslu Íslands. Tístið má sjá hér að ofan.