Ferðamenn á Íslandi í júní voru ánægðari með komu sína en þeir sem ferðuðust til landsins í júní í fyrra og dvelja lengur en þeir sem komu í maí. Þetta kemur fram í nýjum Ferðamannapúlsi Gallup.
Ferðamannapúlsinn er metinn út frá fimm undirþáttum: heildaránægju með ferðina, líkum á að mæla með Íslandi sem áfangastað, skynjun á gestrisni Íslendinga, hvort að ferðin hafi uppfyllt væntingar og hvort að ferðin hafi verið peninganna virði. Af þessum þáttum voru það líkur á meðmælum sem mældust hæstar meðal ferðamanna, eða í 89,2 stig af 100 mögulegum. Lægstu einkunn fékk síðastnefndi þátturinn, þ.e. hvort ferðin hafi verið peninganna virði, en hann fékk 78,2 stig.
Ástralir ánægðastir, Bretar óánægðastir
Samkvæmt ferðamannapúlsinum, sem mældi væntingar ferðamanna frá 29 löndum, voru Ástralir ánægðastir með Íslandsdvölina sína, en meðal þeirra mældist ferðamannapúlsinn með 89,2 stig. Aftur á móti mældist púlsinn lægstur meðal breskra ferðamanna, en þar var hann 80,6 stig.
Púlsinn hefur hækkað nokkuð frá því í júní í fyrra, en þá mældist hann 81,9 meðal ferðamanna á Íslandi. Hins vegar lækkaði hann örlítið frá mánuðinum á undan, en hann mældist í 83,6 stigum í maí. Einnig hefur ferðamynstur gestanna breyst, en hlutfall ferðamanna sem dvöldu í fimm nætur eða lengur jókst úr 55% í maí upp í 65% í júní. Samkvæmt Gallup eru ferðamenn sem gista í fimm nætur eða lengur almennt ánægðari en þeir sem gista skemur.