Fulltrúar 34 samtaka kvenna og fimm heildarsamtaka launafólks munu sameiginlega efna til viðburðarins Kvennafrí 2018 þann 24. október næstkomandi, undir formerkjum #metoo / #églíka til að styðja við þær konur sem hafa stigið fram og sagt sögur sínar. Með því vilja konur láta heyra í sér á nýjan leik og kalla eftir aðgerðum stjórnvalda, atvinnurekenda, stéttarfélaga, félagasamtaka og stofnana og breytingum innan samfélagsins í heild. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu.
Undirbúningsnefnd sem skipuð hefur verið um viðburðinn leitaði til ríkisstjórnarinnar með beiðni um styrk vegna undirbúnings og framkvæmd samstöðufunda og samþykkti ríkisstjórnin á fundi sínum í morgun að veita fimm milljónir króna af ráðstöfunarfé sínu til verkefnisins.
Kvennafrídaginn má rekja til þess að Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ákvað að árið 1975 að það ár yrði helgað málefnum kvenna. Mánudaginn 24. október það ár lögðu þúsundir kvenna víðs vegar hér á landi niður vinnu til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna undir yfirskriftinni kvennafrí og síðan hafa konur fjórum sinnum til viðbótar gengið út af vinnustað sínum til að mótmæla misrétti og misjöfnum kjörum kynjanna á íslenskum vinnumarkaði.