Lífeyrissjóðirnir stefna allir að aukinni hlutdeild erlendra fjárfestinga í ár, en samhliða því má búast við nokkurri minnkun á veltu á íslenska hlutabréfamarkaðnum. Heildarvelta Kauphallarinnar í júní er þriðjungi minni en hún var á sama tíma í fyrra.
Allt frá afléttingu gjaldeyrishaftanna hefur yfirlýst stefna íslenskra lífeyrissjóða verið aðdreifa eignasafninu sínu með því að auka við erlendar fjárfestingar. Hvatt var til þeirrar stefnu í niðurstöðum starfshóps forsætisráðherra í upphafi árs, en samkvæmt honum nemur eignarhald lífeyrissjóðanna þriðjungi af heildarfjármunum á Íslandi.
Í fjárfestingarstefnu 10 stærstu lífeyrissjóðanna fyrir árið 2018 stefna þeir allir á að auka vægi erlendra eigna, auk þess sem þeir hafa hækkað efri vikmörk fyrir hlutdeild þeirra. Samkvæmt fjárfestingastefnu Lífeyrissjóðs verzlunarmanna er stefnt að þriggja prósentustiga hækkun í hlutdeild erlendra eigna í ár, eða úr 25% í 28%. A-deild LSR stefnir á 30% hlutdeild erlendra eigna árið 2022 og 40% hlutdeild til lengri tíma, en hlutdeild sjóðsins við árslok 2017 var 22%. Stapi var hins vegar með 20,2% hlutdeild af erlendum hlutabréfum í október í fyrra, en sjóðurinn stefnir á 23% hlutdeild í lok árs.
Í maí síðastliðnum námu heildareignir lífeyrissjóðanna 4.057 milljörðum, en þar af voru 3.041 þeirra innlendar. Hlutfall erlendra eigna lífeyrissjóðanna nam því 25%, en það hefur aukist úr 21% við afnámi gjaldeyrishaftanna í mars á síðasta ári.
Ef miðað er við óbreytta stærð eignasafns lífeyrissjóðanna myndi hvert prósentustig í aukinni hlutdeild þeirra í erlendum bréfum skila sér í 41 milljarðs króna minni eignarhlutdeild þeirra í Kauphöllinni. Peninginn sem upp á vantar til að hlutfall erlendra fjárfestinga fari upp í langtímamarkmið margra þeirra, sem er 50%, nemur rúmum 1.000 milljörðum króna.
Þriðjungi minni velta í Kauphöllinni
Samhliða aukinni hlutdeild lífeyrissjóða í erlendum eignum á seinni hluta ársins í fyrra minnkaði markaðsvelta skráðra fyrirtækja töluvert. Á tímabilinu jókst hlutfall erlendra eigna sjóðanna úr 22% upp í 25%, en heildarvelta hlutabréfaviðskipta í Kauphöllinni minnkaði úr tæpum 50 milljörðum niður í 33 milljarða. Í júní nam veltan einnig tæpum 33 milljörðum, en það er rúmum þriðjungi minna en á sama tíma í fyrra.
Ekki hafa enn fengist tölur um erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna, en hlutdeild þeirra hefur verið í kringum tæp 25% frá janúar til maí. Sömuleiðis hafa gengisbreytingar krónu gagnvart erlendum gjaldmiðlum verið tiltölulega litlar, en krónan styrktist um 1,7% á móti evru á sama tímabili.