Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra undrast á ósætti vegna breytinga á lögum kjararáðs sem leiddi til tugprósenta launahækkana ríkisforstjóra. Enn fremur segir hann lítið sem ekkert svigrúm á almenna markaðnum til mikilla launahækkana. Þetta kemur fram í viðtali fjármálaráðherra í Morgunblaðinu í dag.
Undrast á kalli til frekari aðgerða vegna kjararáðs
Í viðtalinu segir Bjarni sjálfur hafa átt mikið frumkvæði að því að endurskoða alla umgjörð um kjararáð og undrast á kalli til frekari aðgerða vegna þess. Þar minnist hann á að ráðið hafi verið lagt niður með frumvarpi sem ráðuneyti hans samdi, auk þess sem nýtt frumvarp um framtíðarfyrirkomulag þessara mála hafi verið lagt fram.
Kjarninn hefur áður fjallað um frumvarp fjármálaráðuneytisins um lokun kjararáðs, en með því fluttist ákvörðunarvald um starfskjör forstjóra ríkisfyrirtækja frá kjararáði til stjórna fyrirtækjanna. Flestar stjórnir hækkuðu laun forstjóranna um tugi prósenta, þar á meðal 60% launahækkun forstjóra Landsvirkjunar, þrátt fyrir að fyrirmæli stjórnvalda um að stilla launahækkanir í hóf.
Lítið sem ekkert svigrúm til launahækkana
Í viðtalinu segir Bjarni einnig það vera engin tíðindi fyrir sig að svigrúm til launahækkana sé lítið sem ekkert, það liggi fyrir og hafi lengi gert það. „Það er auðvitað með ólíkindum að heyra verkalýðsleiðtoga að því er virðist tala gegn betri vitund um að það sé svigrúm á almenna markaðnum til tuga prósenta launahækkana – kannski 20-30% launahækkana – og af því að það hafi ekki skilað verðbólgu í fortíðinni muni það ekki gera það í framtíðinni,“ bætir fjármálaráðherra við.
Vill lækka tryggingagjald og neðra skattþrepið
Samkvæmt Bjarna hefur kjaraþróunin í landinu sjaldan verið jafnjákvæð og þessi misseri. Við því bætir hann: „Maður saknar þess stundum í tali launþegahreyfingarinnar að menn eigni sér eitthvað af þeim mikla árangri sem hefur náðst á undanförnum árum. Hann er sögulega gríðarlegur en tónninn er eins og hér hafi verið mikil kjaraskerðing, allt sé í uppnámi og þolinmæðin sé á þrotum. Ég verð að segja að það er undarlegt að heyra þennan tón.“
Aðspurður um aðgerðir í kjaramálum nefnir Bjarni lækkanir á tryggingagjaldi í skrefum, annars vegar um næstu áramót og hins vegar ári síðar. Einnig bendir hann á fyrirhugaða lækkun neðra skattþrepsins, sem minnst var á í stjórnarsáttmálanum, en það muni gerast í áföngum á kjörtímabilinu.