Hlutabréfaverð Icelandair hefur lækkað um rúm 10 prósent frá opnun markaða í dag í kjölfar birtingar ársfjórðungsuppgjörs félagsins í gærkvöldi.
Kjarninn fjallaði um niðurstöður uppgjörsins í gær, en flugfélagið tapaði 2,7 milljörðum íslenskra króna á fjórðungnum og hefur því tapað alls 6,4 milljörðum króna það sem af er ári. Heildartekjur félagsins jukust um 9% milli ára. Á sama tíma jókst kostnaðurinn þó um 18%, en þar vó hæst almennur flugkostnaður.
Markaðsvirði félagsins hefur lækkað ört á þessu ári, en lækkunin var skörpust eftir birtingu afkomuvörunar í fyrir annan ársfjórðung 9. júlí síðastliðinn. Í viðvöruninni var afkomuspá þeirra lækkuð um 30%, en í kjölfarið lækkaði hlutabréfaverð flugfélagsins um 24%.
Í dag hefur Icelandair svo orðið fyrir annarri snarpri lækkun, en það sem af er degi hefur markaðsvirði fyrirtækisins lækkað um 10,44 prósent í 77 milljóna króna viðskiptum.