Hagnaður samstæðu Arion banka á öðrum ársfjórðungi nam 3,1 millarði króna, samanborið við 7,1 milljarð króna á sama tímabili 2017. Einnig vill bankinn selja kísilverksmiðjuna sína í Helguvík á þessu ári. Þetta kemur fram í nýbirtu ársfjórðungsuppgjöri bankans í Kauphöllinni.
Samkvæmt uppgjörinu lækkar arðsemi eigin fjár niður úr 13% í 5,9% á tímabilinu. Ef litið er á fyrri helming ársins nam hagnaður bankans um 5 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall bankans var 21,9% í lok júní en var 24,0% í árslok 2017.
Þetta er fyrsta uppgjör bankans frá skráningu sinni í Kauphöllina þann 15. júní, en hlutabréf bankans hafa lækkað um tæp fimm prósent síðan þá.
Í uppgjöri sínu minnist bankinn einnig á því að koma Stakksbergi, eignarhaldsfélagi kísilverksmiðjunnar í Helguvík, í söluferli á síðari hluta ársins. Kjarninn hefur áður fjallað um eignarhald bankans á kísilverinu, en kísilframleiðandi versins, United Silicon, fór í gjaldþrot fyrr á þessu ári.