Ríkissaksóknari Danmerkur í efnahags-og alþjóðaafbrotamálum hefur hafið formlega rannsókn á Danske bank vegna mögulegra brota á lögum um peningaþvætti. Þetta kemur fram í tilkynningu frá embætti ríkissaksóknarans sem birtist í gær.
Kjarninn hefur áður fjallað um meint brot Danske bank, en bankinn er ásakaður um að hafa stundað peningaþvætti fyrir u.þ.b. 890 milljarða íslenskra króna í gegnum útibúið sitt í Eistlandi. Bankinn hóf eigin rannsókn á málinu árið 2015, en stuttu seinna rannsökuðu frönsk yfirvöld og fjármálaeftirlit Danmerkur einnig málið.
Samkvæmt Morten Niels Jakobsen, efnahagsríkissaksóknara Danmerkur, er rannsóknin vel á veg komin. „Við höfum eðli málsins samkvæmt fylgt málinu í gegnum lengri tíma, en af góðum ástæðum höfum við haldið spilunum þétt að okkur. Nú erum við komin það langt að ég get staðfest að við hjá embættinu höfum hafið rannsókn í þeim tilgangi að skoða hvort við í Danmörku getum höfðað sakamál gegn Danske bank fyrir brot á peningaþvættislögunum,“ segir Morten í tilkynningu embættis síns.
Hverjum steini velt við
Einnig bætir Morten við að embættið sé staðráðið að velta við hverjum steini í málinu. Of fljótt sé að segja hvort sakamál verði höfðað gegn bankanum, en fari svo gæti hann átt yfir höfði sér þungar fjárhagslegar refsingar.
Afleiðingar málsins hafa nú þegar verið töluverðar innan Danske bank, en Lars Mørch, rekstrarstjóri alþjóðaviðskipta bankans, sagði af sér árið 2015 vegna þess og mánuði seinna barst opinber afsökunarbeiðni á starfseminni frá framkvæmdastjóranum.
Fyrir mánuði síðan birti svo Berlingske frétt þar sem upphæð peningaþvættisins er sögð hafa numið um 890 milljörðum íslenskra króna, en það er tvöfalt það sem áður var talið. Í kjölfar þeirra frétta lækkaði hlutabréfaverð bankans töluvert og ýmsir hættu viðskiptum við hann, þar á meðal frumkvöðullinn Davíð Helgason.