Verðbréf og gjaldmiðlar víðs vegar um heiminn lækka ört í verði vegna yfirstandandi gjaldeyrishruns í Tyrklandi. Forseti landsins hefur ásakað Bandaríkin um að hafa stungið Tyrki í bakið og segir „falsfréttir“ vera ástæða krísunnar. The Guardian greinir frá.
Kjarninn hefur áður greint frá gjaldeyriskrísunni í Tyrklandi, en gjaldmiðillinn þar, tyrkneska líran, hefur hrapað í verði á síðustu dögum eftir að Bandaríkjastjórn tilkynnti að hún myndi beita frekari viðskiptaþvingunum og tollahækkunum gegn Tyrklandi. Þar að auki hafa Tyrkir tekið stór lán í Bandaríkjadölum og neita nú að hækka vexti samhliða vaxtahækkunum dollarans. Við það hefur verðbólgan í landinu náð methæðum og traust til lírunnar hrapað.
Hrun lírunnar hélt svo áfram í dag, en hún hefur lækkað um tæp sjö prósent gagnvart Bandaríkjadal það sem af er degi. Einnig ríkir fjármagnsflótti í tyrknesku kauphöllinni þar sem stærstu fyrirtækin hafa að meðaltali lækkað um tíu prósent í verði.
Líran bítur evrópska banka og nýmarkaðsríki
Ástandið í Tyrklandi er byrjað að smita út frá sér til annarra ríkja og fyrirtækja víðs vegar um heiminn. Meðal þeirra eru evrópskir bankar með starfsemi í landinu, líkt og BBVA og UniCredit, sem báðir hafa lækkað um 2% í verði frá dagsbyrjun. Evrópskir bankar hafa einnig kröfur í tyrkneskum bönkum að andvirði yfir hundrað milljarða Bandaríkjadala, en fari svo að ástandið versni gætu bankarnir í Tyrklandi orðið gjaldþrota. Hættan á greiðslustöðvun frá tyrkneskum bönkum hefur því veikt traust gagnvart evrunni, en gengi hennar gagnvart Bandaríkjadal hefur ekki mælst lægra í heilt ár.
Slæmt gengi lírunnar hefur einnig haft áhrif á önnur nýmarkaðsríki sem hafa einnig tekið lán í Bandaríkjadölum. Gengi rússnesku rúblunnar, Suður-Afríska randsins og kínverska yuansins hafa öll veikst gagnvart Bandaríkjadal á þessu ári, en bætt hefur verulega í veikinguna á síðustu dögum.
„Falsfréttir“ vandamálið
Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, kenndi „falsfréttum“ um krísuna og Bandaríkin reyna að „stinga landið í bakið.“ Samkvæmt honum hefur fjöldi fólks dreift misvísandi upplýsingum um ástandið til þess að skapa ringulreið á markaðnum, en Erdogan sagði hvers kyns dreifingu á falsfréttum vera „landráð.“ Forsetinn bætti einnig við að líran myndi ná jafnvægi á sanngjörnu stigi innan skamms.