Virði rafmyntanna Bitcoin og Ether hefur fallið hratt í verði á þessu ári eftir mikinn vöxt í fyrra. Fjárfestar eru tvístígandi um framtíðarvirði myntanna og blockchain tækninnar sem hún hvílir á, en margir þeirra trúa enn að það muni vaxa í náinni framtíð. Þetta kemur fram í frétt á vef Bloomberg.
Fjárfestar hafa selt hlut sinn í Bitcoin og öðrum rafmyntum í stórum stíl það sem af er mánuði. Á síðustu tveimur vikum hefur virði rafmyntarinnar lækkað úr rúmum átta þúsund Bandaríkjadölum niður í tæpar sex þúsund. Þetta jafngildir rúmri fjórðungslækkun á einungis fjórtán dögum, en virði Bitcoin er nú einungis tæp 30 prósent af virði hennar í fjárfestingabólunni í fyrra.
Skiptar skoðanir eru þó enn meðal verðbréfamiðlara, þar sem margir þeirra telja gríðarlegar lækkanir rafmyntarinnar undanfarna mánuði einungis vera leiðrétting á hjarðhegðun fjárfesta í fyrra og að virði blockchain tækninnar muni stíga í náinni framtíð.
Kjarninn hefur áður fjallað um áhuga fjárfesta á blockchain tækninni á þessu ári, en fyrr í sumar tilkynnti fjárfestingabankinn BlackRock að fyrirtækið hafi sett saman starfshóp til að meta virði tækninnar og kosti, þrátt fyrir lítinn áhuga fjárfesta. Í síðasta mánuði tilkynnti svo Kodak að fyrirtækið hafi hætt við verkefni sitt sem sneri að útleigu á bitcoin-námum eftir að hafa tilkynnt það í fyrra. Þess í stað muni myndavélafyrirtækið einbeita sér að vinnslu rafmynta á Íslandi.
Bloomberg fjallaði einnig um minnkandi virði rafmyntarinnar Ether í gær, en samkvæmt fréttinni bjuggust margir við að hún myndi taka við af Bitcoin sem verðmætasta rafmyntin eftir að hafa náð 32 prósentum af rafmyntarmarkaðnum í fyrra. Ether hefur hins vegar hrunið í verði líkt og Bitcoin, en virði myntarinnar í dag er einungis tæp 40% af virði hennar í fyrra.