Norska varnarmálaráðuneytið hefur tilkynnt rúma tvöföldun bandarískra hermanna í Noregi samkvæmt tilkynningu sinni í dag. Áætlanir um fjölgunina voru kynntar fyrr í sumar, en rússnesk yfirvöld sögðu hana óvinveitta og myndu ekki vera án afleiðinga.
Fréttastofa norska ríkisútvarpsins greindi frá fjölguninni fyrr í dag og vísaði til fréttatilkynningar varnarmálaráðuneytisins í Noregi. Samkvæmt tilkynningunni verður bandarískum hermönnum í Noregi og Norður-Evrópu aukið úr 330 í 700. Hermennirnir eru staðsettir í Værnes í Trøndelag í Mið-Noregi, en þeim er skipt út tvisvar á ári. Ráðuneytið segir ákvörðunina um að fjölga bandarískum hermönnum muni styrkja samhæfingu milli norska hersins og annarra Bandamanna í heræfingum.
Áætlanir um fjölgunina voru fyrst birtar í júní, en rússnesk yfirvöld brugðust þá ókvæða við henni. Samkvæmt frétt Business Insider um málið sagði rússneska sendiráðið í Noregi aðgerðina vera „augljóslega óvinveitta og munu ekki vera án afleiðinga.“ Stjórnvöld í Noregi hafa hins vegar sagt að þau telji Rússland ekki ógna öryggi landsins með beinum hætti, en lýstu þó yfir áhyggjum yfir aukinni sókn í hernaðarmálum landsins á síðustu árum, sérstaklega eftir hernám á Krímskaganum í Úkraínu árið 2014.
Kjarninn hefur áður fjallað um aukna spennu í varnarmálum milli Noregs og Rússlands, en rússneski herinn lokaði fyrir umferð í Barentshafinu fyrr í sumar með óvæntri hernaðaræfingu án þess að tilkynna norskum yfirvöldum. Að æfingunni komu 36 herskip og 20 flugvélar, en varnarmálaráðuneyti Rússlands sagði markmið æfingarinnar að undirbúa sig gegn viðamikilli óvinaárás.