Rán Reynisdóttir hársnyrtimeistari og fjögurra barna móðir gefur kost á sér til formennsku í Neytendasamtökunum. Hún varð við áskorun hóps fólks sem vill vinna að eflingu samtakanna og hagsmunagæslu almennings. Þetta kemur fram í tilkynningu sem hún sendi frá sér í dag.
Fimm einstaklingar hafa gefið kost á sér í embættið. Þeir eru Breki Karlsson forstöðumaður stofnunar um fjármálalæsi, Guðmundur Hörður Guðmundsson fyrrverandi formaður Landverndar, Guðjón Sigurbjartsson viðskiptafræðingur, Jakob S. Jónsson leiðsögumaður og leikstjóri og Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna.
Framboðsfresturinn rann út í gær en nýr formaður verður kjörinn á þingi Neytendasamtakanna 27. október næstkomandi.
„Neytendamál snerta allt okkar daglega líf og vara og þjónusta tekur hröðum breytingum, viðskiptahættir breytast og það er nauðsynlegt að Neytendasamtökin leggi réttar áherslur hverju sinni og starfi í takt við raunverulegar þarfir og hagsmuni neytenda. Það mun ekki takast nema með því að fjölga félögum, styrkja tengingu stjórnar við grasrótina og styrkja fjárhagsgrunn samtakanna,“ segir Rán í tilkynningunni.