Michael Cohen, lögmaður Donalds Trumps Bandaríkjaforseta til margra ára, er nú til rannsóknar hjá yfirvöldum í Bandaríkjunum fyrir stórfelld fjársvik og skattsvik.
Umfang þeirra nemur um 20 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 2,1 milljarði króna, og eru lánveitingar til fjölskyldureksturs hans, meðal annars á sviði leigubílastarfsemi, til rannsóknar.
Frá þessu greindi New York Times í gærkvöldi.
Cohen er hættur störfum fyrir Trump og sinnir Rudi Guilliani, fyrrverandi borgarstjóri í New York og saksóknari, nú lögfræðistörfum fyrir forsetann.
Jafnvel er búist við því að Cohen verði formlega ákærður á næstu vikum, en auk fyrrnefndra meintra brota er Cohen til rannsóknar vegna greiðslna til kvenna sem Donald Trump Bandaríkjaforseti er sagður hafa átt í leynilegu sambandi við.
Study the late Joseph McCarthy, because we are now in period with Mueller and his gang that make Joseph McCarthy look like a baby! Rigged Witch Hunt!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) August 19, 2018
Cohen sá um ýmis mál fyrir forsetann, meðal annars greiðslurnar til kvenna en með þeim var ætlunina að þagga niður samband Trumps við konurnar.
Er það meðal annars til rannsóknar hvort greiðslurnar séu brot á lögum um fjármögnun kosningabaráttu.
Alríkislögreglan FBI framkvæmdi húsleit á skrifstofu Cohens í apríl, og hefur síðan haft ýmis mál sem tengjast Cohen og störfum hans fyrir Trump til rannsóknar.