Frans páfi hefur ritað kaþólikkum um allan heim bréf þar sem hann afsakar og harmar grimmdarverk presta innan kaþólsku kirkjunnar gagnvart börnum.
Nýuppkomin mál í Pannsylvaníu ríki, þar sem þúsundir barna voru misnotuð af prestum kaþólsku kirkjunnar yfir áratugatímabil, hefur beint kastljósinu enn einu sinni að þeim grimmdarverkum sem prestar innan kaþólsku kirkjunnar bera ábyrgð á.
Þá hafa margir af æðstu mönnum kirkjunnar gerst sekir um yfirhylmingu, með því að tilkynna ekki um glæpi presta til lögreglu þrátt fyrir vitneskju um þá.
Í bréfi sínu segir Frans páfi, að hann fordæmi alla þá glæpi sem komið hafa upp á yfirborðið. „Það er nauðsynlegt að við getum viðurkennt og fordæmt, með sorg og skömm, þau grimmdarverk sem framin hafa verið af vígðum einstaklingum, og öllum þeim sem falið hefur verið að vernda þá sem minna mega sín. Við skulum biðja um fyrirgefningu fyrir syndir okkar og syndir annarra,“ segir Frans páfi í bréfi sínu, af því er fram kemur í umfjöllun CNN.