Á öðrum ársfjórðungi árið 2018 voru að jafnaði 200.798 starfandi á Íslandi á aldrinum 16 til 74 ára. Af þeim voru konur 93.884 eða 46,7 prósent og karlar 106.914 eða 53,2 prósent. Starfandi innflytjendur voru að jafnaði 37.388 á öðrum ársfjórðungi 2018 eða 18,6 prósent af öllum starfandi. Þetta kemur fram í frétt Hagstofunnar.
Þegar horft er til búsetu kemur í ljós að á sama tíma voru starfandi með skráð lögheimili á Íslandi að jafnaði 194.673 eða 96,9 prósent allra starfandi. Alls höfðu 163.410 lögheimili hér á landi og einhvern íslenskan bakgrunn eða 83,9 prósent. Af innflytjendum voru 32.110 með lögheimili á Íslandi eða 85,9 prósent en 5.278 höfðu ekki lögheimili á Íslandi eða 14,1 prósent.
Samkvæmt aðferðum Hagstofunnar telst einstaklingur innflytjandi sem fæddur er erlendis og á foreldra og báða afa og báðar ömmur sem einnig eru fædd erlendis. Aðrir teljast hafa einhvern íslenskan bakgrunn.
Fjöldi erlendra ríkisborgara fjórfaldast
Kjarninn fjallaði fyrr í sumar um fjölgun landsmanna á fyrri hluta ársins 2018 en rekja má fjölgunina til þess að erlendir ríkisborgara fluttu hingað til lands. Þeir voru orðnir 41.280 talsins og fjölgaði um 3.328 frá áramótum, eða um 8,7 prósent. Alls fjölgaði íbúum á Íslandi um 2.360 á tímabilinu og er því ljóst að landsmönnum hefði fækkað ef ekki hefði verið fyrir aðflutning erlendra ríkisborgara til landsins. Hlutfallslega setjast langflestir þeirra að í Reykjanesbæ. Fjöldi erlendra ríkisborgara þar hefur tæplega fjórfaldast á örfáum árum.
Alls eru Íslendingar rúmlega 353.000 talsins og eru erlendir ríkisborgarar tæplega tólf prósent af íbúum landsins. Þetta kom í mannfjöldatölum Hagstofu Íslands í júlí síðastliðnum sem sýna stöðuna í lok júní síðastliðins.
Erlendum ríkisborgurum sem búa á Íslandi hefur fjölgað um 97 prósent frá lokum árs 2011. Það þýðir að fjöldi þeirra hefur tvöfaldast á sex og hálfu ári. Þeir hafa aldrei verið fleiri og fjölgun þeirra hefur aldrei verið hraðari en á síðustu 18 mánuðum.