Forseti framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins, Jean-Claude Juncker, segir að til standi að hætta því að breyta klukkunni milli sumar- og vetrartíma. Þetta kom fram í þýskum sjónvarpsþætti síðastliðinn föstudag og greinir The New York Times frá.
Ástæðuna segir hann vera könnun sem sýnir fram á að meirihluti fólks í Evrópusambandinu vill hætta að breyta klukkunni milli árstíða. Samkvæmt könnuninni telur 80 prósent að sumartíminn eigi að vera allan ársins hring.
Breytingarnar munu þó ekki taka gildi fyrr en Evrópuþingið hefur samþykkt þær og ríkisstjórnir landanna innan sambandsins.
Samkvæmt evrópskum lögum verða öll 28 löndin innan Evrópusambandsins að breyta klukkunni síðasta sunnudaginn í mars og fara aftur yfir á vetrartíma í lok október.
Tími samræmdur á Íslandi árið 1907
Nokkuð hefur verið talað um að breyta fyrirkomulaginu hér á landi en þingsályktunartillaga um seinkun staðarklukku hefur alls verið lögð fram fjórum sinnum frá árinu 2010 á þingi og hefur verið þverpólitísk samstaða í málinu.
Samkvæmt Vísindavefnum voru lög sett árið 1907 um samræmdan tíma á Íslandi þannig að alls staðar á landinu skyldu klukkur fylgja tíma sem var einni klukkustund á eftir Greenwich-tíma. Áður hafði þetta verið nokkuð breytilegt þannig að klukkan á Akureyri var til dæmis ekki nákvæmlega það sama og klukkan í Reykjavík. Árið 1917 voru sett lög sem heimiluðu að klukkunni væri flýtt um allt að einn og hálfan tíma frá því sem ákveðið var árið 1907.
Þessari heimild var beitt á árunum 1917 til 1921 þegar klukkunni var flýtt um eina klukkustund yfir sumarið og var tíminn á Íslandi þá sami og Greenwich-tími. Á árunum 1922 til 1938 var klukkunni hins vegar ekki breytt heldur gilti sami tími á Íslandi allt árið um kring.
Sami tími í fimmtíu ár
Sá siður að flýta klukkunni um eina klukkustund yfir sumarið var aftur tekinn upp árið 1939 og var það gert á hverju ári í tæpa þrjá áratugi. Íslendingar skiptu síðast á milli vetrar- og sumartíma árið 1968 en það ár tóku gildi lög sem kváðu á um að sumartíminn, það er Greenwich-tíminn, skyldi vera staðaltími á Íslandi. Síðan þá hefur sami tími gilt allt árið um kring hér á landi.
Minnihluti mannkyns breytir klukkunni hjá sér tvisvar á ári og eru margar af fjölmennustu þjóðum heims eins og Kína, Indland, Indónesía, Pakistan, Bangladess, Nígería og Japan ekki með sérstakan sumartíma. Mörg þessara fjölmennu ríkja hafa þó einhvern tíma skipt á milli sumar- og vetrartíma en gera það ekki lengur.