Samherji, stærsta útgerðarfyrirtæki landsins, hagnaðist um 14,4 milljarða króna í fyrra. Það þýðir að samanlagður hagnaður fyrirtækisins á sjö ára tímabili, frá byrjun árs 2011 til síðustu áramóta, nemur yfir 100 milljörðum króna. Rúmlega helmingur starfsemi Samherja er erlendis.
Samherji birti frétt á heimasíðu sinni á föstudag þar sem kemur fram að samanlagðar tekjur dóttur- og samstarfsfélaga samstæðu Samherja, sem eru í alls fimmtán löndum, hafi verið 77 milljarðar króna í fyrra. Hagnaðurinn var líkt og áður segir 14,4 milljarðar króna sem er nánast sá sami og hann var árið áður, þegar hann var 14,3 milljarðar króna.
Í fréttinni segir að söluhagnaður eigna hafi vegið þungt í uppgjöri ársins eða um fimm milljörðum króna. Þá hefur styrking krónunnar áhrif á uppgjörið, enda ársreikningur Samherja gerður í evrum. Ef krónan hefði ekki styrkst eins mikið og hún gerði á árinu 2017 væri hagnaður Samherja umreiknaður í íslenskar krónur enn hærri.
Eigið féð 94,4 milljarðar
Rekstur Samherja hefur verið lyginni líkastur á undanförnum árum. Hagnaður Samherja árið 2011 var 8,8 milljarðar, árið 2012 16 milljarðar, árið 2013 22 milljarðar, árið 2014 ellefu milljarðar og árið 2015 var hagnaðurinn 13,9 milljarðar króna. Árið 2016 var hann svo 14,3 milljarðar króna og í fyrra 14,4 milljarðar króna. Samanlagt hefur samstæðan því hagnast um 100,4 milljarða króna á sjö ára tímabili.
Eigið fé Samherja um síðustu áramót var um 94,4 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið 67,1 prósent.
Ráðist var í töluverðar breytingar hjá Samherja í fyrra, og sú stærsta var að skipta samstæðunni upp í tvö félög þar sem innlend starfsemi var aðgreind frá erlendri starfsemi. Innlenda starfsemin verður áfram rekin undir hatti Samherja hf. en sú erlenda í félaginu Samherji Holding ehf. Skiptingin var gerð 30. september 2017 og því er afkoma beggja eininganna dregin saman í ofangreindum tölum.
Keyptu risahlut í Eimskip
Í ár hefur samstæðan ráðist í miklar fjárfestingar og þar ber hæst að Samherji Holding keypti 25,3 prósent hlut í Eimskipafélagi Íslands á 11,1 milljarða króna í júlí síðastliðnum. Um var að ræða öll hlutabréf bandaríska fjárfestingasjóðsins Yucaipa í Eimskipafélagi Íslands hf.
Baldvin Þorsteinsson, sonur Þorsteins Más, settist nýverið í stjórn Eimskipafélagsins í krafti þess eignarhlutar.