Á hluthafafundi N1, sem haldinn verður 25. september næstkomandi, verður meðal lögð fram tillaga að nýrri starfskjarastefnu félagsins.
Á meðal þess sem lagt er til er áframhaldandi kaupaukaáætlun sem geri stjórn félagsins kleift að greiða forstjóra, æðstu stjórnendum og eftir atvikum öðrum stjórnendum kaupauka. Tilgangur hennar er, samkvæmt tillögunni, að „bæta hag hluthafa og verðlauna árangur.“
Kaupaukinn getur verið í formi reiðufjár, sérstakrar lífeyrisgreiðslu eða með greiðslu hlutabréfatengdra réttinda sem eru utan fastra starfskjara starfsmanna. Fjárhæð kaupaukans getur á ársgrundvelli að hámarki svarað til sex mánaða grunnlauna fyrir forstjóra og þriggja mánaða launa fyrir framkvæmdastjóra.
Slík kaupaukaáætlun er til staðar í starfskjarastefnu félagins eins og og hefur verið í fimm ár.
Horfa á til launadreifingar
Í tillögunni að nýju starfskjarastefnunni, sem birt var í Kauphöll í dag, er einnig fjallað um starfskjör forstjóra félagsins, en Kjarninn greindi frá því í mars síðastliðnum að Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1, hefði verið með tæpar 5,9 milljónir króna í heildarlaun á mánuði á árinu 2017. Launin hækkuðu um rúmlega ein milljón á mánuði milli ára. Heildarlaun forstjórans jafngiltu launatöxtum 22 afgreiðslumanna á bensínstöðvum N1.
Nokkrar breytingar verða gerðar á starfskjörum forstjóra verði breytingatillögurnar samþykktar. Í þeim er meðal annars sagt að starfskjör forstjóra eigi að vera ítarlega skilgreind og að skýrt komi fram hvað séu grunnlaun, breytileg laun, lífeyrisréttindi, orlof, önnur hlunnindi og uppsagnarfrestur. Þá bætist við að uppsagnarfrestur forstjórans geti að hámarki verið 12 mánuðir, en þó sé heimilt við sérstök, en óskilgreind skilyrði, að gera sérstakan starfslokasamning við forstjóra „þjóni slíkur samningur hagsmunum félagsins að mati stjórnar.“
Keyptu Krónuna
Samkeppniseftirlitið samþykkti í lok júlí síðastliðins kaup N1 á öllu hlutafé Festi hf., sem rekur meðal annars verslanir Krónunnar. Kaupverðið var 23,7 milljarðar króna var það annars vegar greitt með afhendingu ríflega 79,5 milljóna hluta í N1 á genginu 115, eða 9,2 milljarða króna, og hins vegar með ríflega 14,5 milljarða í formi reiðufjár.
Fyrr í þessum mánuði var greint frá því að Jón Björnsson væri hættur sem forstjóri Festar og fyrir liggur að Eggert Þór verður forstjóri sameinaðs félags. Fyrir hluthafafundinum liggur fyrir tillaga að nafn sameinaðs félags verði Festi hf.Sex lykilstjórnendur Festar, þar á meðal Jón Björnsson forstjóri, fengu samanlagt um 344 milljónir króna greiddar þegar kaupréttarsamningar þeirra voru gerðir upp fyrr á árinu í tengslum við sölu á keðjunni til N1.
N1, sem selur eldsneyti og rekur verslanir, er skráð á markað og stærstu eigendur félagsins eru íslenskir lífeyrissjóðir.