Norska álfyrirtækið Norsk Hydro ASA hefur hætt við kaup á álverinu í Straumsvík. Frá þessu er greint á heimasíðu Norsk Hydro en fyrirtækið gerði í febrúar skuldbinandi tilboð um að kaupa álverið af núverandi eiganda þess, Rio Tinto.
Í tilboðinu fólst að kaupa allt hlutafé í íslenska álverinu, 53 prósent hlut í hollenskri verksmiðju Rio Tinto og helmings hlut í sænskri verksmiðju fyrirtækisins. Tilboðið í allan pakkann hljóðaði upp á 345 milljónir dali, eða 34,7 milljarða króna.
Búist var við því að ferlinu myndi ljúka á öðrum ársfjórðungi þessa árs.
Í tilkynningu frá Norsk Hydro segir að uppfylla hafi þurft fjölda skilyrða, til að mynda frá samkeppnisyfirvöldum og íslenskum stjórnvöldum. Auk þess hafi tekið langan tíma að fá samþykki frá evrópskum samkeppnisyfirvöldum.
„Eftir að hafa kannað aðrar tímalínur, útkomur og óskaði Hydro eftir því að hætt yrði við viðskiptin,“ segir í tilkynningunni. Báðir aðilar hafa samþykkt riftunina og Hydro hefur dregið umsókn sín til evópska samkeppniseftirlitsins til baka.
Í febrúar sagði Svein Richard Brandtzæg, forstjóri Norsk Hydro, að tilboðið endurspeglaði mikla trú fyrirtækisins á álframleiðslu. Eftirspurn eftir því sé að vaxa meira en eftir nokkrum öðrum málmum á heimsvísu.
Norsk Hydro er eitt stærsta álfyrirtæki í heimi. Norska ríkið á 43,8 prósent hlut í því og norski olíusjóðurinn á auk þess 6,5 prósent hlut. Hjá fyrirtækinu starfa um 13 þúsund manns. Hlutabréf Norsk Hydro eru skráð í kauphöllinni í Osló.