Stjórn HB Granda samþykkti á fundi í gær að kaupa allt hlutafé í útgerðarfyrirtækinu Ögurvík ehf. Kaupverðið er 12,3 milljarðar króna og samkvæmt tilkynningu til Kauphallar Íslands byggir það á niðurstöðum tveggja óháðra matsmanna.
Auk þess vinnur Deloitte á Íslandi skýrslu um kaupin samkvæmt lögum um viðskipti tengdra aðila og verður hún kynnt hluthöfum með fundarboði. Ástæða þess er sú að fráfarandi eigandi Ögurvíkur er Brim. Það félag er stærsti einstaki eigandi HB Granda með 35 prósent eignarhlut og aðaleigandi þess, Guðmundur Kristjánsson, settist nýverið í forstjórastólinn hjá HB Granda. Hann er því að kaupa eign af sjálfum sér.
Aðrir eigendur fóru fram á óháð mat
Tilkynnt var um að samkomulag hefði náðst um kaupin þann 7. september síðastliðinn. Það samkomulag var þó bundið samþykki stjórnar og hluthafafundar.
Stærstu eigendur HB Granda, að Brim frátöldu, eru íslenskir lífeyrissjóðir. Lífeyrissjóður verzlunarmanna á 13,66 prósent hlut, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins á 9,94 prósent hlut, Gildi lífeyrissjóður á 8,62 prósent hlut og Birta lífeyrissjóður á 8,62 prósent hlut.
Kjarninn greindi frá því fyrr í vikunni að aðrir hluthafar hefðu lagt mikla áherslu á að utanaðkomandi aðilar yrðu fengnir til að leggja mat á þau verðmæti sem HB Grandi er að kaupa, í ljósi þess að verið sé að kaupa félag sem fyrir er í eigu forstjóra HB Granda og stærsta eiganda þess. Ekki er tilgreint í tilkynningunni til kauphallar hvaða utanaðkomandi aðilar mátu virði Ögurvíkur.
16,4 sinnum eigið féð
Kjarninn greindi frá því á mánudag að samkvæmt ársreikningi Ögurvíkur fyrir árið 2017 þá hafi hagnaður félagsins numið 37 milljónum króna. Það hagnaðist hins vegar um 485 árið 2017. Félagið var með 747 milljónir í eigið fé í lok árs. Eignir námu 6,25 milljörðum króna en skuldir 5,5 milljörðum króna. Þar af voru langtímaskuldir í erlendri mynt, 4,8 milljarðar króna.
Verðmiðinn sem tilkynnt var um til kauphallar er því 16,4 sinnum eigið fé félagsins, miðað við stöðuna eins og hún var í lok árs í fyrra.
Til samanburðar er verðmiðinn á HB Granda nú 56,5 milljarðar króna, en eigið fé félagsins var um mitt þetta ár 250 milljónir evra, eða sem nemur um 32,5 milljörðum króna. Markaðsvirðið er því 1,7 sinnum eigið fé félagsins.
Gerir út einn frystitogara
Ögurvík er útgerðarfélag í Reykjavík sem gerir út frystitogarann Vigra RE 71. Aflaheimildir hans á fiskveiðiárinu sem hófst í byrjun mánaðar eru 7.680 tonn af botnfiski og 1.663 tonn af makríl. Vigri RE er eitt kvótahæsta fiskiskip íslenska flotans.
Rúm tvö ár eru síðan að Brim keypti Ögurvík, en þá var kaupverðið sagt trúnaðarmál.