Forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur (OR), Bjarni Bjarnason, hefur ákveðið að stíga tímabundið til hliðar sem forstjóri fyrirtækisins, á meðan gerð er úttekt á vinnustaðamenningu.
„Ég hef óskað eftir því við formann stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að stíga tímabundið til hliðar sem forstjóri á meðan þau mál sem komið hafa upp verða skoðuð og úttekt gerð á vinnustaðarmenningu fyrirtækisins. Ég tel afar mikilvægt bæði í þágu starfsmanna og almennings að sú skoðun fari fram. Þar mega mínar ákvarðanir ekki vera undanskildar.
Því tel ég rétt að víkja tímabundið á meðan málið er skoðað.
Starfsfólk OR hefur lagt mikið á sig á síðustu árum við að byggja fyrirtækið upp á ný úr krappri stöðu. Sú vinna hefur ekki síst snúið að auknu jafnrétti kynjanna og bættri vinnustaðarmenningu. Áríðandi er að halda þeirri mikilvægu vinnu áfram,“ segir í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur.
Fram kom í fréttum fyrir helgi að Bjarni Már Júlíusson hefði verið rekinn sem framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar vegna óviðeigandi hegðunar gagnvart samstarfsfólki sínu.
Áslaug Thelma Einarsdóttir, sem sagt var upp störfum hjá Orku náttúrunnar fyrir viku, tjáir sig um málið á Facebook í dag. Hún gagnrýnir forstjóra Orkuveitunnar harðlega og segist ætlar að leita réttar síns af fullum þunga. Í stöðuuppfærslu sinni fer hún ítarlega yfir brottrekstur sinn hjá ON, sem hún segir tilhæfulausan, og segist hún reið og slegin vegna afgreiðslunnar á málinu öllu.
Uppfært: Formaður stjórnar OR, Brynhildur Davíðsdóttir, hefur sent frá sér eftirfarandi tilkynningu: „Ósk forstjóra OR um að stíga tímabundið til hliðar, sem mér barst nú undir kvöld, verður tekin fyrir á fundi stjórnar fyrirtækisins sem haldinn verður eins fljótt og auðið er. Þegar hefur verið óskað eftir því við Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar að gerð verði úttekt á vinnustaðarmenningu og tilteknum starfsmannamálum. Undirbúningur hennar er þegar hafinn.“