Einar Þór Sverrisson stjórnarformaður eiganda Fréttablaðsins og varaformaður stjórnar Vinnslustöðvarinnar hf. í Vestmannaeyjum hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar þess að Guðmundur Kristjánsson, kenndur við Brim, sakaði blaðið um að láta störf Einars fyrir Vinnslustöðina ráða fréttaflutningi af meintum athugasemdum Samkeppniseftirlitsins við viðskiptahætti Guðmundar.
Einar segir að Guðmundur ákveði að gera lítið úr öllum blaðamönnum og ritstjórum Fréttablaðsins, vega að starfsheiðri þeirra og dylgi um að þeir lúti boðvaldi stjórnar félagsins varðandi fréttaflutning. Samkvæmt fjölmiðalögum séu ritstjórnir fjölmiðla sjálfstæðar og lúti ekki boðvaldi eigenda eða stjórnarmanna. Þær reglur eru áréttaðar í ritstjórnarreglum Fréttablaðsins og er þeim fylgt í starfsemi Fréttablaðsins.
„Ég sem formaður stjórnar útgáfufélags Fréttablaðsins skrifa ekki fréttir Fréttablaðsins, ákveð ekki efnistök, eða veit yfirhöfuð hvað birtist í blaði morgundagsins. Þannig er það, hefur verið og mun verða. Störf mín fyrir Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum og útgáfufélag Fréttablaðsins tengjast ekki á nokkurn hátt,“ segir Einar.
Einar segist oft hafa séð til þess að það fari ekki Guðmundi vel að umgangast sannleikann og lög og reglur með réttum hætti. Þann veikleika sinn getur hann ekki yfirfært yfir á aðra. Um yfirlýsingu Guðmundar verður það eitt sagt að margur heldur mig sig.“