Guðmundur Kristjánsson, forstjóri og stærsti eigandi HB Granda, setur fréttaflutning Fréttablaðsins af meintum athugasemdum Samkeppniseftirlitsins við viðskiptahætti Guðmundar í samhengi við það að Einar Þór Sverrisson, stjórnarformaður Fréttablaðsins, sé einnig lögfræðingur meirihlutaeigenda í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum. Guðmundur hefur lengi átt í illdeilum við þann hóp, en hann var minnihlutaeigandi í Vinnslustöðinni þar til í vikunni, þegar hann seldi þann hlut á 9,4 milljarða króna til FISK Seafood, útgerðarhluta Kaupfélags Skagfirðinga.
Í frétt Fréttablaðsins sagði að Samkeppniseftirlitið hefði gert fjórar alvarlegar athugasemdir við viðskiptahætti Guðmundar Kristjánssonar, aðaleiganda Brims og HB Granda, og segir að ef frummat stofnunarinnar sé á rökum reist sé um að ræða „alvarleg brot“ á samkeppnislögum.
Niðurstaða í málinu liggur ekki fyrir
Eftirlitið sendi sjálft frá sér tilkynningu í dag vegna umfjöllunarinnar þar sem segir að tilkynnt hafi verið um það í júlí til kauphallar og birt opinberlega að til skoðunar væru mál tengd Guðmundi. Einkum væri til skoðunar hvort breytingar hafi orðið á yfirráðum í HB Granda þegar Brim eignaðist verulegan hlut í félaginu í maí síðastliðnum og tengsl fyrirtækja í gegnum eignarhluti og stjórnarsetu Guðmundar sem til staðar voru á þeim tíma eða áður.
Aðilar málsins hafa nú komið á framfæri skýringum og sjónarmiðum vegna málsins, þ.á.m þess efnis að Guðmundur var genginn úr stjórn Vinnslustöðvarinnar þegar athugun Samkeppniseftirlitsins hófst. Er Samkeppniseftirlitið nú að fara yfir fram komnar skýringar og upplýsingar og afla frekari upplýsinga áður en ákvörðun verður tekin um hvort þörf sé íhlutunar í málinu.“
Stjórnarformaður er lögfræðingur VSV
Guðmundur sendi síðan sjálfur tilkynningu rétt eftir hádegi í dag. Þar segir að Samkeppniseftirlitið hafi kaup Brims á hlutabréfum í HB Granda í athugun og hafi sent félögunum af því tilefni erindi í júlí á þessu ári. „Þar kemur fram að Samkeppniseftirlitið skoðar fjögur atriði. Í fyrsta lagi hvort tilkynningarskyldur samruni hafi átt sér stað þegar Brim hf. eignaðist þann 4.maí 34 prósent hlut í HB Granda. Það er enn í skoðun.
Í öðru lagi hvort það standist 10.gr. samkeppnislaga að aðaleigandi Brims hf. sé forstjóri HB Granda. Það er enn í skoðun.
Í fjórða lagi er athugað hvort að tilkynningaskyldur samruni hafi átt sér stað þegar Brim hf. keypti allt hlutafé í Ögurvík árið 2016. Samskipti áttu sér stað við Samkeppniseftirlitið á þeim tíma og var það sameiginleg niðurstaða þá að þessi viðskipti væru ekki tilkynningaskyld og er það atriði ekki lengur til skoðunar.“
Síðan segir Guðmundur að málið hafi verið til umfjöllunar í fjölmiðlum í byrjun júlí á þessu ári og þá hafi hann sagt í viðtali við Morgunblaðið að eðlilegt væri að eftirlitsstofnanir væru að fylgjast með viðskiptalífinu og er hann enn þeirrar skoðunar. „En vegna forsíðufréttar Fréttablaðsins má geta þessa að stjórnarformaður Fréttablaðsins er einnig lögmaður meirihlutaeigenda Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum hf. og varaformaður stjórnar VSV.“