Nýleg rannsókn Hagstofu Íslands um kaup fyrirtækja á auglýsingum á netinu leiddi í ljós að helmingur íslenskra fyrirtækja með að lágmarki 10 starfsmenn greiddu fyrir auglýsingar á netinu árið 2017.
Að meðaltali var fjórðungi birtingarkostnaðar varið til auglýsingakaupa hjá erlendum fyrirtækjum. Þetta kemur fram í frétt Hagstofunnar.
Rannsóknin var lögð fyrir 959 fyrirtæki með að lágmarki 10 starfsmenn og var svarhlutfall 80 prósent.
Til skoðunar að skattleggja kaup á erlendum netauglýsingum
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra kynnti í síðustu viku aðgerðir sem snúa að því að 400 milljónum króna verður varið til þess að bæta rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla hér á landi.
Ein aðgerðin snýr að skattlagningu vegna kaupa á auglýsingum. Til stendur að samræma gjaldtöku við kaup á auglýsingum svo íslenskir fjölmiðlar standi jafnfætis erlendum netmiðlum.
Til skoðunar er að skattleggja kaup á erlendum netauglýsingum til þess að jafna stöðu innlendra fjölmiðla og erlendra vefmiðla sem taka til sín ört stækkandi hluta auglýsingamarkaðar. Horft er til nágrannalanda og Evrópuríkja sem einnig hafa sambærileg mál til skoðunar.
Jafnframt er lagt til að gagnsæi í opinberum auglýsingakaupum verði aukið. Segir í tillögunum að hið opinbera myndi þá kaupa fjölda auglýsinga í fjölmiðlum. „Mikilvægt er að gagnsæi sé til staðar í kaupum opinberra aðila á auglýsingum. Það er hægt að gera til dæmis með notkun vefsins opnirreikningar.is eða með skilum á árlegri skýrslu.“