Beiting hryðjuverkalaganna bresku 8. október 2008 gegn Landsbankanum, Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu var ruddaleg og óþörf aðgerð og bresk stjórnvöld skulda þeim íslensku afsökunarbeiðni vegna hennar. Þetta kemur fram í skýrslu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um erlenda áhrifaþætti bankahrunsin, sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor hafði yfirumsjón með, og skilað var til fjármálaráðherra í dag.
Í yfirliti á heimasíðu ráðuneytisins þar sem teknar eru saman helstu niðurstöður skýrslunnar kemur fram að Mervyn King lávarður, hafi sagt við Hannes að beiting hryðjuverkalaganna hafi verið Bretum til skammar. Því markmiði að koma í veg fyrir ólöglega fjármagnsflutninga hafi mátt ná með tilskipun, sem breska Fjármálaeftirlitið gaf út til útibús Landsbankans í Lundúnum 3. október 2008.
Hannes segir bresk stjórnvöld hafa mismunað þeim tveimur bresku bönkum sem voru í eigu Íslendinga, Heritable og KSF, í októberbyrjun 2008, með því að bjarga öllum breskum börnkum nema hinum íslensku. Þeim hafi verið neitað um fyrirgreiðslu og lokað með tilskipunum. Mismunun á grundvelli þjónernis gangi gegn reglum um innri markað Evrópu en Hannes vekur athygli á því að það mál hafi samt ekki verið tekið upp af framkvæmdastjórn ESB.
Þá segir Hannes að Íslendingar hafi ekki mismunað á grundvelli þjóðernis, þegar þeir settu neyðarlögin 6. október 2008. Þannig hafi breskir innistæðueigendur notið sama forgangs og íslenskir. Íslenska þjóðin hafi hvorki borið lagalega né siðferðilega ábygð á skuldbindingum bankanna. Hann segir málflutning Breta í Icesave-deilunni því ekki hafa verið á rökum reistur og að bresk stjórnvöld skuldi íslensku þjóðinni afsökunarbeiðni vegna beitingar hryðjuverkalaganna og framgöngunnar í Icesave-málinu.
Hannes segir að einn almennan lærdóm fyrir Evrópu og raunar allan heim megi draga af viðbrögðum íslenskra stjórnvalda við bankahruninu: Með því að gera innstæðueigendur að forgangskröfuhöfum í bú banka verður óþarft að veita bönkum ríkisábyrgð, og þannig minnkar freistnivandi (moral hazard) banka.
Tvær aðgerðir eru í skýrslunni sagðar hafa skipt miklu máli um þá keðjuverkun sem varð í bankahruninu. Að Danske bank neitaði Glitni um fyrirgreiðslu í september 2008, þegar hann ætlaði að selja hinn norska banka sinn, með þeim afleiðingum að Glitnir varð að leita til Seðlabankans um neyðarlán. „Það setti af stað bankahrunið. Breska fjármálaeftirlitið lokaði KSF 8. október með þeim afleiðingum, að móðurfélagið á Íslandi, Kaupþing, féll því að lánalínur voru háðar áframhaldandi rekstri KSF. Það olli falli síðasta bankans, sem eftir stóð.
Hannes Hólmsteinn hefur unnið að skýrslunni í fjögur ár. Hannesi var falið að stýra rannsóknarverkefninu í júlí 2014 af þáverandi fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssyni. Áætlaður kostnaður við verkefnið var tíu milljónir króna og áætluð verklok voru í byrjun september 2015. Þau verklok frestuðust ítrekað. Til stóð að kynna skýrsluna 8. október 2017, rúmum tveimur árum eftir áætluð verklok, en af því varð ekki. Þá stóð til að kynna skýrsluna 20. nóvember 2017 en því var einnig frestað. Í pistli sem Hannes skrifaði á vefinn Pressuna sagðist hann ætla að fresta skilum til að „gefa þeim, sem minnst er á í henni, kost á að skýra mál sitt, leiðrétta og gera athugasemdir.“ Kynningin átti þá að fara fram 16. janúar 2018.
Í samtali mbl.is við Hannes kemur fram að stytting skýrslunnar, sem er um 180 blaðsíður að lengd en var áður meira en 300 blaðsíður, sé meðal þess sem hafði áhrif á seinkun útgáfu hennar. Skýrslan er á ensku og má nálgast í heild sinni hér.