Fulltrúi Bankasýslu ríkisins í Arion banka krafðist þess í desember í fyrra að innri endurskoðanda Arion banka yrði falið að gera formlega athugun á sölu bankans á hlut sínum í breska matvælaframleiðandanum Bakkavör þar sem stærstu eigendur eru Ágúst og Lýður Guðmundssynir.
Meirihluti stjórnar bankans hafnaði hins vegar tillögu Kirstínar Þ. Flygenring, þáverandi fulltrúa Bankasýslunnar í stjórn bankans, þess efnis á fundi sínum í desember síðastliðnum.
Frá þessu er greint í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál, í dag. Er meðal annars vitnað til minnisblaðs um þessi mál, sem blaðið fékk afhent frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu á grundvelli upplýsingalaga.
Er það mat Bankasýslu ríkisins að ríkissjóður hafi tapað 2,6 milljörðum króna vegna þess hvernig staðin var að sölunni, í gegnum óbeinan eignarhlut sinn í Arion banka. Er tekið fram í minnisblaðinu að þetta sé svipuð fjárhæð og talið sé að ríkissjóður hafi orðið af vegna sölu Landsbankans á 31,2 prósent hlut í Borgun, en ennþá er deilt um þau viðskipti fyrir dómstólum.
Bankasýslan skrifaði Bjarna Benediktssyni minnisblað vegna þessa og var það sent 15. janúar síðastliðinn.
„Í minnisblaðinu, sem Markaðurinn fékk afhent frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu á grundvelli upplýsingalaga, er jafnframt upplýst um að Guðrún Johnsen, þáverandi varaformaður stjórnar Arion banka, hafi á stjórnarfundi bankans í nóvem ber 2015 greitt atkvæði gegn sölunni í Bakkavör. Hún lagði síðan til á fundi stjórnar þann 14. nóvember í fyrra að gerð yrði könnun á söluferli eignarhlutarins. Sú tillaga var felld og degi síðar var Guðrúnu tjáð að „breytingar væru fyrirhugaðar á stjórn bankans og [hennar] aðkomu væri ekki óskað“, eins og það er orðað í minnisblaðinu,“ segir meðal annars í umfjöllun Markaðarins.
Gengið var frá sölu eignarhaldsfélagsins BG12 á 45,9 prósenta hlut í Bakkavör í janúar árið 2016 en Arion banki fór með 62 prósenta hlut í eignarhaldsfélaginu. Aðrir eigendur BG12 voru aðallega lífeyrissjóðir, eins og til dæmis Lífeyrissjóður verslunarmanna sem átti 14,3 prósenta hlut og Gildi með 11,6 prósenta hlut. Kaupendur að hlutnum voru bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir, stofnendur Bakkavarar, en þeir áttu fyrir um 38 prósent í matvælaframleiðandanum, og bandaríski vogunarsjóðurinn Baupost. Var kaupverðið ríflega 147 milljónir punda.
Ítarlega hefur verið fjallað um þessi viðskipti á vef Kjarnans, en Bakkavararbræður, Ágúst og Lýður, er nú metnir á um 100 milljarða og voru settir númer 197 yfir ríkasta fólk Bretlands, á nýlegum lista The Sunday Times.