Arion banki hafnar því að óeðlilega hafi verið staðið að ráðstöfun á hlut bankans í BG12 í Bakkavör Group þegar hluturinn var seldur í byrjun árs 2016. Þetta kemur fram í tilkynningu sem bankinn hefur sent frá sér vegna umfjöllunar fjölmiðla um söluna.
Sú umfjöllun byggir á minnisblaði sem Bankasýslu ríkisins sendi fjármála- og efnahagsráðherra 15. janúar síðastliðinn þar sem að fram kom að íslenska ríkið hefði farið á mis við 2,6 milljarða króna með sölu á hlut Arion banka á hlutum sínum í Bakkavör, en ríkið átti á þeim tíma 13 prósent hlut í bankanum. Þar var einnig greint frá því að fulltrúi Bankasýslunnar hafi krafist þess í desember 2017 að innri endurskoðanda Arion banka yrði falið að gera formlega athugun á sölu bankans á hlut sínum í Bakkavör þar sem stærstu eigendur eru Ágúst og Lýður Guðmundssynir.
Meirihluti stjórnar bankans hafnaði hins vegar tillögu Kirstínar Þ. Flygenring, þáverandi fulltrúa Bankasýslunnar í stjórn bankans, þess efnis.
Í fyrra var Bakkavör svo skráð á markað í Bretlandi. Virði félagsins þá var 1,14 milljarðar punda, um 169 milljarðar króna, eða fjórum sinnum meira en sú upphæð sem bræðurnir höfðu greitt fyrir hann. Þeir hafa selt hluta af eign sinni og eiga nú 50,15 prósent hlut í dag. Baupost á síðan rétt undir 25 prósent hlut.
Eignir bræðranna Ágústar og Lýðs Guðmundssona, stærstu eigenda Bakkavarar, voru metnar á 700 milljónir punda, rúmlega 100 milljarða króna, um síðustu áramót. Þeir voru á þeim tíma í 197. sæti yfir ríkustu íbúa Bretlands, samkvæmt lista The Sunday Times.
Eignir þeirra jukust um 550 milljónir punda, tæplega 80 milljarða króna, á milli ára.
Hafna því að hafa gert nokkuð rangt
Í tilkynningu frá Arion banka segir bankinn að hann líti svo á að hann hafi í hvívetna staðið með eðlilegum og faglegum hætti að framkvæmd á söluferli á eignarhlut í BG12 í Bakkavör Group og hafnar bankinn alfarið vangaveltum um annað.
Þar segir að bankinn hafi einungis getað haldið á óbeinum hlut sínum í Bakkavör í takmarkaðan tíma samkvæmt lögum og því hafi honum borið skylda til að selja hlutinn um leið og tækifæri gafst. Hlutlaus og virtur ráðgjafi, breski bankinn Barclays, hafi verið ráðinn til að halda utan um söluna. Sá ráðgjafi hafi ekki talið álitlegt að skrá Bakkavör á markað á þeim tíma. Þar þar hafi ráðið mestu „mikil skuldastaða félagsins og óeining í eigandahópnum“.
Eftir ítarlegar viðræður við aðra fjárfesta hafi verið ákveðið að selja Baupost og bræðrunum hlutinn þar sem um hæsta skuldbindandi tilboðið hafi verið um að ræða.
Svo segir í tilkynningu Arion banka: „Sú hækkun á verði hluta í Bakkavör Group sem varð á þeim tæpu tveimur árum sem liðu á milli þess sem BG12 seldi hlut sinn í félaginu og þangað til félagið var skráð á markað á árinu 2017, verður rakin til þriggja þátta. Í fyrsta lagi hafði afkoma félagsins batnað umtalsvert vegna ófyrirsjáanlegrar þróunar á mörkuðum félagsins. Í öðru lagi hafði félaginu tekist að lækka skuldastöðu sína. Í þriðja lagi hafði verð hlutabréfa félaga í matvælaiðnaði almennt hækkað á markaði og tók skráningarverð Bakkavarar Group vitaskuld mið af þeirri almennu hækkun.
Að mati Arion banka fólust í söluverði Bakkavarar Group mjög vel viðunandi endurheimtur þeirra aðila sem lögðu til stofnunar BG12, en verðmæti eignarhlutar þeirra fimmfaldaðist meðan hluturinn var í eigu þess félags. Árleg ávöxtun þessara aðila nam u. þ. b. 40% á ári á eignarhaldstímanum.
Með vísan til framangreinds er hafnað sjónarmiðum um að óeðlilega hafi verið staðið að ráðstöfun á eignarhlut BG12 í Bakkavör Group.“