Elísabet Gunnarsdóttir þjálfari Kristianstad í Svíþjóð mun ekki taka við þjálfun kvennalandsliðsins í knattspyrnu. Í samtali við RÚV sagði Elísabet að hún hafi átt samtal við KSÍ þar sem fram hefði komið að æskilegt væri að þjálfari íslenska landsliðsins væri búsettur hér á landi.
Elísabet hefur búið lengi í Svíþjóð og frétt RÚV kemur fram að séu það kröfur KSÍ að þjálfarinn búi á Íslandi verði hún ekki þjálfari landsliðsins. Síðan hafi önnur atriði komið til sem hún hafi þurft að vega og meta en niðurstaðan hafi verið að gefa möguleikann frá sér.
Í samtali við Kjarnann segir Guðni Bergsson formaður KSÍ að krafan um búsetu þjálfarans hafi ekki verið gert að skilyrði. „Við ræddum um fótboltann almennt og kvennaboltann auðvitað sérstaklega og bara út af hennar aðstæðum þá vildi hún ekki fara í þessar viðræður og taka þær lengra,“ segir Guðni.
Búseta á Íslandi hafi ekki verið ákvörðunaratriði í þessu heldur aðeins eitt af mörgum. Guðni vill hins vegar ekki svara því hvaða ástæður lágu að baki því að ekki var hægt að ganga til samninga við Elísabetu. Hún verði að svara því sjálf.
„Munurinn á kvennaboltanum og karlaboltanum er náttúrulega sá að flestir liðsmanna kvennaliðsins spila hér heima á meðan í síðasta hópi einungis einn leikmaður karlaliðsins sem spilar í Pepsi-deildinni,“ segir Guðni en þjálfari íslenska karla landsliðsins, Erik Hamrén, er einmitt búsettur í Svíþjóð. Hið sama átti við um fyrrverandi þjálfara liðsins Lars Lagerback. Eðlilegt hefur þótt að ferðast mikil milli landa í tilvikum þessara þjálfara.
Guðni ítrekar hins vegar að búseta á Íslandi hafi aðeins verið æskileg, ekki skilyrði. „Í raun og veru snerist þetta bara um að fá að heyra í henni og fá hana til viðræðna um mögulegt starf. Það var nálgunin í þessu. Við erum að tala við fleiri og fara yfir sviðið í þessu.“