Zuism trúfélag óskaði eftir að fá lóð frá Reykjavíkurborg en þeirri umsókn hefur verið hafnað. Þetta kemur fram í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Kjarnans. Á vefsíðu trúfélagsins kemur einnig fram að það hafi lagt fram lóðarumsókn til Reykjavíkurborgar. Með umsókninni hafi fylgt teikningar af fyrirhuguðu musteri sem Zúistar vilja byggja í nálægð við miðborg Reykjavíkur.
Samkvæmt Reykjavíkurborg var skrifstofu eigna og atvinnuþróunar falið af borgarráði að svara umsókninni og var það gert með bréfi þann 12. júní síðastliðinn.
„Ekki þótti hægt að verða við umsókn félagsins á grundvelli 5. gr. laga um Kristnisjóð og var á það bent að þau trúfélög sem hafa fengið niðurfellingu gatnagerðargjalda af hálfu Reykjavíkurborgar á síðustu árum hafi fengið þá niðurfellingu samþykkta á grundvelli 2. mgr. 6. gr. laga nr. 153/2006 um gatnagerðargjald,“ segir í svari Reykjavíkurborgar.
Skortur á aðstöðu
Segir á vefsíðu trúfélagsins að það hafi vaxið mikið á síðustu 2 til 3 árum og þörfin fyrir húsnæði undir bæði starfsemi og athafnir orðin aðkallandi. „Mikilvægt er að félagið hafi gott heimili til að geta haldið áfram að vaxa og dafna sem og sinnt þeim mikla fjölda meðlima sem er nú þegar í félaginu. Eins og staðan er í dag á félagið ekkert safnaðarheimili og ekkert um fáanlegar eignir sem henta félaginu. Talsvert er spurt um að koma á athöfnum og viðburðum og komast mun færri að vegna skorts á aðstöðu.“
Á vef Zúista segir að einn helsti guð sé Enlil og sé hann guð lofts og jarðar. Zigguratið muni heita í höfuð á hans helsta musteri sem hét Ekur. Þýðing á nafninu þýði fjallahof og sé eitt af helgustu hofum Súmera þar sem Ekur tákni miðja jarðar þar sem helgistaður guðanna og jörð mætist. Samkvæmt teikningum muni byggingin vera á tveimur hæðum ásamt hofi ofan á annarri hæð. Stór stigi muni vera alla leiðina frá jörðu upp að hofinu. Hofið sé helgasti staður Zúista og þar geti farið fram athafnir svo sem giftingar, skírnir og tilbiðjanir. Einnig sé einn vinsælasti viðburður Zúista bjór og bæn þar sem gyðjan Ninkasi er heiðruð með lestri á ljóði sem sé einnig elsta bjóruppskrift í heimi.
Vinna að kostnaðaráætlun
Stjórn Zuism vinnur nú með verkfræðingum, byggingarverktökum og hönnuðum til að fá sem nákvæmasta kostnaðaráætlun og hönnun að byggingunni. „Við trúum á að nákvæmni og góður undirbúningur muni koma í veg fyrir tafir og hindranir. Allar áætlanir og teikningar eru unnar að fagaðilum. Endanlegur kostnaður verksins ræðst þó að nokkru leyti af staðsetningu Zigguratsins.
Eftir mikinn vöxt á félaginu árið 2015 ákvað stjórnin að stofna sérstakan Zigguratsjóð sem heldur utan um fjármál tengd uppbyggingu og viðhaldi byggingarinnar. Frá og með 2018 mun meðlimum vera boðið að sóknargjöldin renni til Zigguratsjóðsins og einnig styrkja hann og efla ennþá meira,“ segir á vefsíðu þeirra.
Meðlimum fækkar milli ára
Samkvæmt Hagstofunni eru nú skráðir 1.923 einstaklingar í Zuism trúfélag en samkvæmt tölum frá því í nóvember í fyrra voru 2.845 meðlimir skráðir í félagið.
Til stendur að endurgreiða sóknargjöld til meðlima þeirra í ár og mun sérstakt umsóknarform vera á vefsíðu félagsins, samkvæmt trúfélaginu. Í svari þeirra við fyrirspurn Kjarnans stefnir það á að opna fyrir umsóknir þann 1. nóvember næstkomandi.