Vilhjálmur H. Vilhjálmsson og meðdómarar hans í Landsrétti höfnuðu því með úrskurði sínum í gær að Vilhjálmur væri vanhæfur til að dæma í áfrýjuðu máli um endurupptöku Ólafs Ólafssonar. Þetta kemur fram í tilkynningu sem almannatengslafyrirtækið KOM sendir fyrir hönd Ólafs Ólafssonar í dag.
Í tilkynningunni kemur jafnfram fram að úrskurðurinn verði kærður til Hæstaréttar.
Vilhjálmur er dómari í máli sem áfrýjað var til Landsréttar þar sem tekist er á um kröfu Ólafs um endurupptöku á þætti hans í Al Thani-málinu. Ólafur Ólafsson krafðist þess að Vilhjálmur viki sæti.
Kjarninn fjallaði um málið í vikunni en í svari Þórólfs Jónssonar, lögfræðings Ólafs, við fyrirspurn Kjarnans kom fram að sú krafa væri byggð á ákvæði í lögum um meðferð einkamála sem kveður á um að dómari sé vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru „önnur atvik eða aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa.“
Í því samhengi var vísað til þrenns. Í fyrsta lagi muni Vilhjálmur vera náinn vinur Markúsar Sigurbjörnsson, sem var einn dómenda í Al Thani málinu og sat í forsæti í dóminum.
Í öðru lagi hafi sonur Vilhjálms, Ingi Freyr Vilhjálmsson blaðamaður, ritað tugi blaðagreina um Ólaf þar sem jafnan sé fjallað um hann á afar neikvæðan hátt.
Í þriðja lagi hafi annar sonur Vilhjálms, Finnur Vilhjálmsson, verið saksóknari hjá embætti sérstaks saksóknara en síðar ráðinn starfsmaður rannsóknarnefndar Alþingis sem rannsakaði sölu á eignarhlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. Finnur var annar höfundar skýrslu sem nefndin sendi frá sér þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að Ólafur hefði beitt stjórnvöld blekkingum. Erindi frá Ólafi vegna þeirrar málsmeðferðar allrar er nú til meðferðar hjá Mannréttindadómstól Evrópu.
Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði kröfu Ólafs Ólafssonar í desember síðastliðnum um að fella úr gildi úrskurð endurupptökunefndar sem komist hafði að þeirri niðurstöðu að ekki væri efni til þess að endurupptaka Al Thani-málið svokallaða þar sem Ólafur var sakfelldur fyrir markaðsmisnotkun.
Ólafur höfðaði mál gegn embætti ríkissaksóknara og íslenska ríkinu í júní 2016. Hann krafðist þess að felldur yrði úr gildi úrskurður endurupptökunefndar frá 26. janúar 2016 þar sem hafnað var beiðni hans um endurupptöku Al Thani-málsins, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 12. febrúar 2015. Þá krafðist Ólafur málskostnaðar.