Björgólfur Thor Björgólfsson, athafnamaður og fyrrverandi kjölfestueigandi í Landsbankanum, segir í nýrri stöðufærslu á vef sínum að þótt því hafi verið vandlega haldið leyndu fyrir skattrannsóknarstjóra hverjir eigi aflandsfélagið Dekhill Advisors Limited þá hafi „ýmsir sem þekkja þokkalega til hafa hvíslað því að mér að þar að baki séu stærsti hluthafi og æðstu stjórnendur Kaupþings.“
Stæsti einstaki hluthafi Kaupþings fyrir bankahrun var Exista, fjárfestingafélag þar sem ráðandi eigendur voru bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir.
Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupunum á 45,8 prósent hlut í Búnaðarbankanum í janúar 2003, sem birt var í fyrra, kom fram að aflandsfélagið Dekhill Advisors Limited, skráð á Tortóla, hafi hagnast um 46,5 milljónir Bandaríkjadala, 2,9 milljarða króna á þávirði, á fléttu sem ofin var í kringum kaupin á bankanum. Á núvirði er upphæðin um 4,7 milljarðar króna.
Hafna aðkomu, vilja ekki aðstoða eða muna ekki
Rannsóknarnefndin komst ekki að því hver væri eigandi Dekhill Advisors með óyggjandi hætti né hverjir hafi haft aðgang að þeim fjármunum sem fóru til félagsins í gegnum baksamninga. Nefndin ályktaði hins vegar að aðilar tengdir Kaupþingi hafi verið eigendur þess. Síðan þá hefur verið reynt að sannreyna hverjir þeir eru, en án árangurs.
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, sagði í svarbréfi sínu við spurningum nefndarinnar að hann teldi „óhætt að fullyrða að ég hafi aldrei heyrt minnst á félagið Dekhill Advisors Limited fyrr en í bréfi nefndarinnar“. Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, sagðist í sínu bréfi ekki geta „aðstoðað nefndina við að svara þeim spurningum sem að mér er beint“.
Skattrannsóknarstjóri fær ekki upplýsingar
Kjarninn greindi frá því fyrir mánuði síðan að embætti skattrannsóknarstjóra fái ekki upplýsingar um hver eigandi Dekhill Advisors sé frá svissneskum yfirvöldum. Ástæðan sé sú að eigendur félagsins lögðu fram vottorð þess efnis að þeir væru ekki skattskyldir á Íslandi, og þar af leiðandi töldu yfirvöld í Sviss sig ekki geta veitt embættinu upplýsingarnar.
Í svari Bryndísar Kristjánsdóttur skattrannsóknarstjóra við fyrirspurn Kjarnans sagði:„Skattrannsóknarstjóri telur sig hafa trúverðugar vísbendingar um það hvaða aðili/aðilar þarna er um ræða og hefur upplýst skattyfirvöld viðkomandi ríkis um málið. Eftir atvikum geta þau þá fylgt málinu eftir telja þau ástæðu til.“