Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra telur að úrskurðir Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála séu mikilvægir því þeir dragi fram nauðsyn þess að skoða fleiri en einn kost líkt og lögin um mat á umhverfisáhrifum kveða á um. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu hans í gærkvöldi.
Hann telur aftur á móti að ekki sé verið að taka fram fyrir hendurnar á nefndinni með frumvarpi Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra en samkvæmt því mun verða mögulegt að veita rekstrarleyfi til bráðabirgða fyrir fiskeldi. Einungis sé verið að búa til rými til að vinna úr þeim annmörkum sem nefndin benti á en ekki fella úrskurðina úr gildi.
Frumvarpið var kynnt á ríkisstjórnarfundi í gær en í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að því sé ætlað að lagfæra með almennum hætti annmarka á lögum um fiskeldi til framtíðar. Sá annmarki birtist í því að samkvæmt gildandi lögum sé eina úrræði Matvælastofnunar, í þeim tilvikum sem rekstrarleyfi fiskeldisstöðvar er fellt úr gildi, að stöðva starfsemi hennar.
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi úr gildi rekstrarleyfi og starfsleyfi Fjarðarlax og Arctic Sea til laxeldis í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði og vísaði einnig frá beiðni fyrirtækja um frestun réttaráhrifa. Samtals voru leyfin upp á um 17.500 tonn en sveitarfélögin á starfssvæði fyrirtækjanna hafa mótmælt stöðunni sem komin er upp og krafist aðgerða.
Drög að frumvarpinu voru sem sagt samþykkt á aukafundi ríkisstjórnarinnar í hádeginu í gær og kynnt hinum stjórnmálaflokkunum síðdegis í gær. Fyrirtækjunum Arctic Fish og Fjarðalaxi er því gefinn frestur til að fara yfir umhverfismat fyrirtækjanna til að tryggja að umsókn þeirra um aukið laxeldi á sunnanverðum Vestfjörðum verði samkvæmt lögum og reglum. Aðspurður segir Kristján Þór frumvarpið ekki fara á svig við úrskurð nefndarinnar um að fella starfsleyfi fiskeldisfyrirtækjanna tveggja úr gildi. Hann segir þá ákvörðun vera sjálfstæða og frumvarpið ekki snerta hennar úrskurð. Frumvarpið flýti einfaldlega fyrir ferli málsins en bið eftir úrskurði dómstóla væri bæði kostnaðarsöm og tímafrek.
Verðum að vera meðvituð um áhættuna
Guðmundur Ingi segir jafnframt á Facebook-síðu sinni að sjókvíaeldi sé umdeilt vegna umhverfisáhrifa, ekki síst vegna hættunnar á slysasleppingum og erfðablöndun við náttúrulega laxastofna. Fréttir hafi borist hér á landi af eldislaxi sem veiðst hefur langt frá sjókvíaeldi og staðfest sé að erfðablöndun við villtan lax hafi þegar orðið á Vestfjörðum.
Hann greinir frá því að langtímaverkefnið sé skýrt. „Að sjá til þess að íslenskt fiskeldi þróist í átt að því öruggasta sem hægt er út frá umhverfissjónarmiðum, hvort sem varðar laxalús, erfðablöndun, úrgang frá eldi eða annað. Að mínu mati þarf að styðja betur við þróun fleiri aðferða í fiskeldi en ekki einungis að vera með sjókvíaeldi í opnum kvíum. Það er ekki bara mikilvægt fyrir náttúruna heldur einnig byggðir landsins. Við verðum að vera meðvituð um áhættuna sem við tökum gagnvart náttúru landsins og draga úr umhverfisáhrifum laxeldis með öllum tiltækum leiðum.
En framundan er líka skammtímaverkefni sem tilkomið er vegna nýlegra úrskurða frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Það snýst um að vinna úr þeim annmörkum á umhverfismati sem bent var á í úrskurðunum og snéri að því að ekki voru bornir saman valkostir um hvaða aðferðir eða umfang væri í fiskeldinu. Mikilvægt er að bæta úr þeim annmörkum. Hluti umræðunnar um þessa úrskurði snýr að sanngirnis- og meðalhófssjónarmiðum, þ.e.a.s. að fyrirtæki geti fengið hæfilegt rými og sanngjarnan frest til að bæta úr annmörkum á leyfum eða umhverfismati sem að baki leyfunum liggja án þess að það kollvarpi starfsemi þeirra,“ segir hann í stöðuuppfærslu sinni.
Lögin um fiskeldi heyra undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
Guðmundur Ingi segir lögin um fiskeldi heyra undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Samkvæmt þeim sé Matvælastofnun gert skylt að stöðva starfsemi fiskeldis ef rekstrarleyfi fellur úr gildi. Í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir sem meðal annars kveða á um útgáfu starfsleyfa fyrir fiskeldi og heyra undir umhverfis- og auðlindaráðherra, sé á hinn bóginn ekki skylt að stöðva starfsemina. „Þau tilvik geta komið upp að rekstrarleyfi í fiskeldi séu ógilt vegna annmarka t.d. á umhverfismati og hefur verið bent á að þá séu engin úrræði til að gæta meðalhófs á meðan unnið er úr slíkum annmörkum. Það er þetta sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur verið með til skoðunar,“ segir umhverfis- og auðlindaráðherra.
Hann ítrekar að lokum að til framtíðar litið verði Íslendingar að ná breiðari sátt um laxeldi, bæði út frá umhverfis- og byggðasjónarmiðum. „Þar tel ég skipta miklu máli að þróa betur aðferðir sem draga úr eða tryggja að ekki verði erfðablöndun við villta laxastofna á Íslandi.“
Sjókvíaeldi er umdeilt vegna umhverfisáhrifa, ekki síst vegna hættunnar á slysasleppingum og erfðablöndun við...
Posted by Guðmundur Ingi, umhverfis- og auðlindaráðherra on Monday, October 8, 2018