Meðalverð seldra íbúða í 101 Reykjavík var 538 þúsund krónur á fermetrann á þriðja fjórðungi í ár. Það er um 20 þúsund krónum hærra en á fjórða fjórðungi í fyrra. Fermetraverð seldra íbúða hefur einnig hækkað í Hlíðunum, Vesturbænum og Grafarvogi í ár en staðið í stað í Seljahverfinu. Verð í Breiðholti er nú lægra en í lok árs 2017. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir í samtali við Morgunblaðið að tölur Þjóðskrár benda til að miðborgarálagið sé að festa sig í sessi. Álag á eignir miðsvæðis hafi áður verið fremur hóflegt. Hann segir aðspurður að eftir því sem verðið sé hærra, og hvert prósent vegi þyngra, megi ætla að prósentuhækkanir verði minni en síðustu misseri. Jaðarsvæði séu að verða of dýr fyrir tekjulága. Greiðslugetan breytist minna „Með því styttist í að verðið fari fram yfir greiðslugetu umtalsverðs hóps kaupenda. Greiðslugetan hefur enda verið að breytast mun hægar.“
Fermetraverð í 112 Reykjavík, Grafarvoginum hefur hækkað mikið í ár. Það var 403 þúsund á fyrsta fjórðungi en 433 þús. í lok þess þriðja. Mismunurinn samvarar 3 milljónum á 100 fermetra íbúð og um 7,4% hækkun á tímabilinu. Dæmigerð 100 fermetra íbúð í Grafarvogi kostar nú 43 milljóni Meðalverð seldra íbúða í fjölbýli í 101 Reykjavík lækkaði milli fyrsta og þriðja ársfjórðungs í ár. Þannig lækkaði verðið úr 554 þúsundum í 538 þúsund á fermetra á tímabilinu. Hins vegar hækkaði það úr 537 þúsund í 538 þúsund milli annars og þriðja fjórðungs. Það er 0,1% hækkun sem telst innan skekkjumarka. Fermetraverð hækkaði milli annars og þriðja fjórðungs í póstnúmerinu 105, eða úr 478 þúsundum í 488 þúsund, eða um 2%. Við þennan samanburð er vert að hafa í huga að meðaltöl kunna að breytast örlítið þegar allir kaupsamningar hafa verið skráðir. Tölur fyrir þriðja fjórðung í ár eru því ekki endanlegar. Þá getur ástand og aldur seldra eigna verið mismunandi á hverjum tíma. Því er varhugavert að draga of miklar ályktanir út frá breytingum milli stakra tímabila. Þetta kemur fram í greiningu Þjóðskrár Íslands fyrir Morgunblaðið.
Verðið hækkaði meira í 107 Reykjavík, Vesturbænum. Þar hækkaði meðalkaupverð allra eigna í fjölbýli úr 469 þúsundum í 515 þúsund milli fyrsta og þriðja fjórðungs, eða um 9,7%. Mismunurinn, 46 þúsund, samsvarar 4,6 milljónum á 100 fermetra. Verðið hefur hins vegar lítið hækkað í 109 Reykjavík, sem er Seljahverfið.. Meðalverðið var um 372 þúsund. Þá lækkaði verðið í 111 Reykjavík, Breiðholtinu, frá fjórða fjórðungi 2017 til þriðja fjórðungs í ár, eða úr 385 þúsundum í 378 þúsund á fermetra. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu.
Jafnvægi að nást á markaði
Magnús Árni Skúlason, hagfræðingur, segir jafnvægi að nást á markaði eftir langt hækkunarskeið. Það skortir þó áfram smærri íbúðir. Um síðustu áramót hafi 2.999 íbúðir verið í byggingu á höfuðborgarsvæðinu, eða fleiri en nokkurt ár síðan 2009. Þrátt fyrir aukinn kraft í byggingum dugi það líklega ekki til að anna eftirspurn eftir öllum gerðum húsnæðis næstu ár. Til dæmis muni að óbreyttu áfram skorta nýjar og ódýrari smáíbúðir. Hröð fólksfjölgun og mikill aðflutningur erlendra ríkisborgara hafi aukið eftirspurn eftir húsnæði. „Það er komið meira jafnvægi á markaðinn. Nú er verið að byggja töluvert og það mun létta á eftirspurnarþrýstingi eftir því sem meira kemur á markaðinn,“ segir Magnús Árni og bendir á að raunverð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu sé að ná jafnvægi. „Það er ekki lengur sá mikli upptaktur sem var í fasteignaverðinu.
Mestar hækkanir á Íslandi
Í umfjöllun Morgunblaðsins kemur fram að samkvæmt útreikningum Reykjavík Economics hefur raunverð íbúða hækkað um 64,1% á Íslandi frá lægsta punkti á 2. ársfjórðungi 2010 til fjórða ársfjórðungs 2017. Það sé mesta hækkun í ríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, á tímabilinu. Næst komi Ísrael og Eistland með um 50% hækkun. Þá hafi raunverð á Íslandi hækkað um 17,1% frá 1. fjórðungi 2017 til 1. fjórðungs í ár, sem sé einnig mesta hækkunin í OECD-ríkjum. Má í þessu efni benda á að raunverð íbúða á Íslandi er nú hærra en 2007.
Fyrstu kaupendum fjölgar
Samkvæmt greiningu Magnúsar Árna fer fyrstu kaupendum fjölgandi á ný. Nú séu tæplega 54 þúsund manns á aldrinum 20-29 ára. Fjölmennir árgangar fólks skapi mikla eftirspurn eftir húsnæði. Rúm 24% íbúðaviðskipta á landinu öllu í fyrra hafi verið fyrstu kaup. Það hlutfall hafi lægst farið í 6,1% árið 2009. „Það þykir eðlilegt í Bandaríkjunum ef þetta hlutfall er um og yfir 30%. Þá er miðað við að þeir sem misstu húsnæði í alþjóðlegu fjármálakreppunni hafi fengið fyrstu kaupenda ívilnanir hjá alríkisstjórninni eftir að hafa verið án húsnæðis í þrjú ár. Það er dæmi um leið sem fara mætti á Íslandi til að styðja við þau tíu þúsund heimili sem misstu húsnæði sitt í efnahagshruninu,“ segir Magnús Árni og bendir á að leigusamningum fari fækkandi vegna fjölgunar fyrstu kaupenda. Það bendi til að jafnvægi sé að myndast á leigumarkaði.