Beiðni Stakksbergs ehf. um að skipulags- og matslýsing félagsins yrði tekin til meðferðar var hafnað á fundi umhverfis- og skipulagsráði Reykjanesbæjar í dag. Í beiðninni var einnig óskað eftir heimild til að vinna að deiliskipulagsbreytingum í samræmi við ofangreinda skipulags- og matslýsingu.
Þetta kemur fram í fundargerð umhverfs- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar frá því í morgun. Umhverfis- og skipulagsráðs er hins vegar aðeins ráðgefandi og því þarf bæjarstjórn Reykjanesbæjar að staðfesta niðurstöðu þeirra á næsta bæjarstjórnarfundi, næstkomandi þriðjudag.
Stakksberg ehf. er nýr eigandi kísilversins í Helguvík. Í sumar auglýsti Stakksberg drög að tillögu að matsáætlun vegna nýs umhverfismats kísilverksmiðjunnar. Tillagan var auglýst í fjölmiðlum þann 25. júní síðastliðinn og óskað var eftir athugasemdum frá almenningi. Stakksberg ehf. er félag í eigu Arion banka sem tekið hefur yfir kísilverksmiðjuna í Helguvík af þrotabúi United Silicon ehf. Í tilkynningu frá félaginu segir að markmið Stakksberg sé að gera allar þær úrbætur sem nauðsynlegar séu til að uppfylla kröfur Umhverfisstofunar en stofnunin komst að þeirri niðurstöðu í janúar síðastliðnum að verksmiðjan uppfyllti ekki skilyrði fyrir starfsleyfi.
Samkvæmt vefsíðu Stakksbergs er ljóst að verksmiðjan var áður að mörgu leyti vanbúin til framleiðslu á kísli. Í tillögu að matsgerð gerir Stakksberg grein fyrir fyrirhuguðum úrbótum og sett var fram rökstudd áætlun um hvaða umhverfisþætti verði fjallað um í mati á umhverfisáhrifum endurnýjaðrar kísilverksmiðju.
112 athugasemdir bárust
Samkvæmt heimasíðu Stakksbergs bárust 112 athugasemdir við tillöguna. Efni athugasemdanna sem bárust voru einkum: Almenn mótmæli við starfsemi kísilverksmiðju í nágrenni bæjarins, íbúar upplifi sig blekkta vegna loftmengunar sem barst frá starfseminni, sjónmengunar mannvirkja og skipulags verksmiðjunnar auk efasemda um framkvæmdina vegna blekkinga stofnanda verksmiðjunnar. Ásamt því bárust athugasemdir frá umsagnaraðilum, Veðurstofu Íslands, Reykjanesbæ og Vinnueftirlitinu. Snérust athugasemdir umsagnaraðila einkum að forsendum líkans um dreifingu efna í andrúmslofti, neyðarskorstein og mat á ásýnd mannvirkja.
Umhverfisstofnun sendi einnig inn umsögn þar sem helst var komið inn á: Hlutverk neyðarskorsteins, áætlaðar tímasetningar úrbótaþátta, fjalla eigi um aðra kosti svo sem mismunandi tæknilausnir, þann valkost að endurræsa ekki verksmiðjuna, mat eigi að fara fram á áhrifum á sjófugla, umhverfisstjórnunarkerfi auk minni athugasemda á borð við fyrirkomulag kælingar, markmið og viðmið.