Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, er í veikindaleyfi í nokkra daga á meðan hann nær sér af sýkingu. Hann greindist með alvarlegan gigtarsjúkdóm eftir að hafa fengið sömu sýkingu síðasta haust, en sú var alvarlegri. Í samráði við lækna var Dagur settur á meðferð í fyrradag til að sýkingin í kviðarholi gangi ekki jafn langt og síðast. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Dagur greindist með svokallaða fylgigigt í sumar, sem skerðir hreyfigetu hans og getur flakkað á milli liða og lagst á líffæri. „Ég tók þá ákvörðun að ég þyrfti að jafna mig og fékk staðgengla til þess að sinna mínum skyldum á meðan. Ég bý svo vel að eiga góða samstarfsmenn. Ég vonast til að til að vera orðinn betri eftir helgi, en þarf að meta það með mínum læknum.“ segir Dagur.
Mikið hefur mætt á meirihluta borgarstjórnar síðustu daga að svara fyrir Braggamálið svokallaða, þar sem framkvæmdir á vegum borgarinnar fóru hundruð milljónir króna fram úr áætlun. Það mál ásamt starfsmannamáli Orkuveitunnar hafa vakið hörð viðbrögð og fjallað hefur verið mikið um bæði málin í fjölmiðlum. Á báðum stöðum stendur yfir úttekt á því hvað að var sem fór úrskeiðis. Það er því mikið álag á borgarstjóranum þessa dagana en Dagur segir þessi fjölmiðlamál þó ekki hafa áhrif á veikindin. „Þetta núna tengist ekki einhverjum fjölmiðlamálum. Það er verra að vera ekki í hringiðunni þegar svona er,“
„Ég tók það skref í sumar að segja frá því að ég væri með þennan sjúkdóm og vissi ekki hvernig framhaldið yrði. Það var kannski til þess að það kæmi ekki á óvart ef ég væri oftar með staðgengla eða legði línurnar öðruvísi. Það eru vonbrigði að í fyrsta sinn sem ég hef þurft að taka frí, fari strax á loft samsæriskenningar. Ég vona að lærdómurinn sé ekki sá að manni hefnist fyrir að vera opinn. Ég vil ekki að það gangi tröllasögur um að ég liggi fyrir dauðanum.“ segir Dagur B. Eggertsson í samtali við Fréttablaðið.