Fjórðungur karla, 24,8 prósent, á aldrinum 25 til 29 ára, bjuggu ennþá í foreldrahúsum árið 2016. Það er tæplega 10 prósent hærra hlutfall en hlutfall kvenna, 15,6 prósent, á sama aldri. Alls búa í heildina fimmtungur Íslendinga á þessum aldri ennþá í foreldrahúsum.
Á milli ára má sjá svipaðar tölur en á árunum 2014 til 2016 bjuggu 26,8 prósent karla í foreldrahúsum en aðeins 14,3 prósent kvenna á sama aldurstímabili. Frá þessu er greint í nýbirtum niðurstöðum lífskjararannsóknar Hagstofu Íslands.
Evrópskar konur flytja fyrr út en karlar
Hlutfall fólks á aldrinum 25 til 29 ára sem býr í foreldrahúsum er breytilegt eftir Evrópulöndum en meðaltalið innan Evrópusambandsins var 39,6 prósent árið 2016. En samkvæmt heimildum Hagstofunnar flytja konur fyrr út en karlar í allri Evrópu. Árið 2016 reyndist hlutfallið hæst í Króatíu 74,5 prósent en lægst í Danmörku en þar búa aðeins 5 prósent ungs fólks, 25 til 29 ára, heima hjá foreldrum sínum.Á Íslandi bjuggu 20,3 prósent ungs fólks ennþá heima hjá foreldrum sínum árið 2016 en það er áttunda lægsta hlutfallið af löndunum í lífskjararannsókninni. Hlutfallið á Íslandi er meira en tvöfalt hærra en á hinum Norðurlöndunum sem röðuðu sér í fjögur lægstu sætin. Í Finnlandi búa aðeins 6 prósent ungs fólks í foreldrahúsum og 9 prósent í Svíþjóð og Noregi.