Kröfurnar á Primera air eru komnar upp í 16,4 milljarða króna en eignir Primera eru metnar á um hálfan milljarð. Í kringum 500 dönsk fyrirtæki og einstaklingar hafa lýst kröfum í þrotabú flugfélagsins. Frá þessu er greint á danska miðlinum Jyske Vestkysten. En tekið er fram að ekki hefur fengið staðfest frá dönskum skiptastjóra þrotabúsins hverjar endanlegu tölurnar um kröfurnar og eignirnar eru. Túristi.is greindi frá þessu fyrst íslenskra miðla.
Í byrjun mánaðarins birtist tilkynningu um það að flugfélagið Primera air væri á leið í gjaldþrot. Gjaldþrotaskipti standa nú yfir en á laugardaginn síðasta var síðan tilkynnt að Travelco, nýtt eignarhaldsfélag, hefur keypt allar ferðaskrifstofur Primera Travel Group, og tekið yfir skuldir við Arion banka. Stærsti eigandi Travelco er Andri Már Ingólfsson, sem áður var forstjóri og stærsti eigandi Primera. Nýtt hlutafé í Travelco nemur milljarði króna, samkvæmt tilkynningu. Kaupverðið er ekki gefið upp í tilkynningu.
Í tilkynningunni kom fram að í kjölfar lokunar Primera Air, töpuðu ferðaskrifstofur Primera Travel Group háum fjárhæðum vegna fluga sem greidd höfðu verið til flugfélagsins en voru ekki flogin. Til að tryggja rekstur ferðaskrifstofanna var stofnað nýtt eignarhaldsfélag með milljarð í nýju hlutafé, sem að stórum hluta hefur nú þegar verið greitt inn. Rekstur allra fyrirtækjanna var því fluttur undir Travelco en það félag heldur áfram óbreyttum rekstri. Öll félögin eru færð undir það félag til að einfalda félagið og styrkja eigið fé þess eftir þessi miklu áföll. Samkvæmt tilkynningunni ætlar félagið að standa við allar skuldbindingar sínar gagnvart öllu starfsfólki og birgjum og heldur áfram rekstri allra