Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar lagði fram fyrirspurn fyrir forsætisráðherra á Alþingi í gær um lánveitingu Seðlabanka Íslands til Kaupþings 6. október 2008. Hann óskaði eftir skriflegum svörum.
Spurningarnar voru svo hljóðandi:
1. Hver tók ákvörðun um að Seðlabanki Íslands veitti Kaupþingi 500 millj. evra neyðarlán, tæplega 78 milljarða kr. á þáverandi gengi, hinn 6. október 2008?
2. Hvernig ráðstafaði Kaupþing þessum fjármunum?
3. Hverjar voru innheimtur Seðlabanka Íslands af þessu láni?
Eftir hrun var mikið fjallað um neyðarlán Seðlabanka Íslands til Kaupþings þann 6. október 2008 í fjölmiðlum. Lánið var upp á 500 milljónir evra, tæplega 78 milljarða króna á gengi þess dags sem lánið var veitt. Tæpur helmingur lánsins endurheimtist aldrei þar sem veðið sem sett var fyrir láninu.
Í vitnaskýrslu frá 2012 kom fram upplýsingar um að símtal hefði átt sér stað á milli Geir H. Haarde þáverandi forsætisráðherra, og Davíðs Oddssonar, fyrrverandi formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands, sem átti sér stað skömmu fyrir hádegi 6. október 2008. Eftir símtalið lá fyrir ákvörðun um að veita lánið til Kaupþings.
Á 10 ára afmæli hrunsins í byrjun mánaðarins virtust vakna aftur spurningar um lán Seðlabankans til Kaupþings. Björgólfur Thor Björgólfsson athafnamaður kallaði m.a. eftir í pistli á heimasíðu sinni þann 5. október eftir endanlegum skýringum á því hvert gjaldeyrisforði þjóðarinnar hafi farið sem Kaupþing fékk að láni frá Seðlabankanum.
Krafðist þess að símtalið væri birt
Í október á síðasta ári stefndi Kjarninn Seðlabanka Íslands og fór fram á að ógilt yrði með dómi sú ákvörðun bankans að hafna kröfu Kjarnans um aðgang að hljóritun og afritum af símtali milli þáverandi formanns Seðlabanka Íslands, Davíðs Oddssonar, og þáverandi forsætisráðherra, Geirs H. Haarde, sem átti sér stað 6. október 2008. Kjarninn fór fram á ógildingu dómsins. Í samtalinu var rætt um veitingu 500 milljón evra neyðarláns til Kaupþings sem kostaði skattgreiðendur á endanum 35 milljarða króna.
Tilgangurinn við að óska eftir símtalinu var að upplýsa almenning um liðna atburði og vegna þess að framundan var birting á tveimur skýrslum, þar af önnur sem unnin er af Seðlabankanum, þar sem atburðir tengdir símtalinu verða til umfjöllunar. Beiðnin var rökstudd með því að um væri að ræða einn þýðingarmesta atburð í nútíma hagsögu sem hefði haft í för með sér afdrifaríkar afleiðingar fyrir íslenskan almenning. Seðlabankinn hafnaði beiðninni og byggði þá ákvörðun einvörðungu á því að þagnarskylda hvíldi yfir umræddum upplýsingum.
Morgunblaðið birti símtalið
Í nóvember sama ár birti Morgunblaðið síðan símtalið í blaði sínum. Davíð Oddsson er og var ritstjóri Morgunblaðsins, símtalið var birt í heild sinni í blaðinu. Um málið var einnig fjallað í forsíðufrétt og þar er því haldið fram að hvorki Davíð né Geir hafi vitað að símtalið var tekið upp
Í símtalinu rekja Davíð og Geir stöðuna eins og hún var og ræða um að það sé einungis hægt að lána Kaupþingi. Það muni þýða að bæði Landsbankinn og Glitnir falli nær samstundis.
Davíð útskýrir fyrir Geir að ef Seðlabanki Íslands geti „skrapað saman 500 milljónum evra“ fyrir Kaupþing séu þeir „komnir inn að beini og þá gætum við hjálpað Kaupþingi í einhverja fjóra fimm daga en þá getum við ekki hjálpað Landsbankanum líka, sko.“
Davíð spyr svo Geir hvort að hann sé að tala um að það eigi frekar að reyna að hjálpa Kaupþingi. Geir svarar: „ Það slær mig þannig sko og mér fannst þeir vera líka á þeirri línu í gærkvöldi allavega þessir Morgan menn.“
Davíð segir honum þá að hann búist ekki við því að fá peninganna til baka. „Þeir segja að þeir muni borga okkur eftir fjóra fimm daga en ég held að það séu ósannindi eða við skulum segja óskhyggja.“
Þeir ræða svo hinn danska FIH banka sem tekinn var sem veð fyrir láninu og Davíð segir að án góðra veða myndi bankinn aldrei lána þessa fjármuni. Hann bætir svo við: „Við megum ekki setja íslenska ríkið á galeiðuna.“
Geir svarar:„Nei, nei þetta eru 100 milljarðar, spítalinn og Sundabrautin.“
Þar á Geir við að þarna sé verið að eyða hinum svokölluðu Símapeningum, en ríkið fékk um 67 milljarðar króna þegar það seldi Símann til Exista árið 2005. Stór hluti þeirra peninga, um 18 milljarðar króna, voru eyrnamerktir nýju hátæknisjúkrahúsi en einungis brot af þeirri upphæð, um 700 milljónir króna, rataði þangað. Þá áttu einnig að fara um 15 milljarðar króna í samgöngubætur á borð við lagningu Sundabrautar.