Samkvæmt borgarlögmanni þykir ljóst að verkefnið við endurbyggingu á húsaþyrpingu við Nauthólsveg 100 hafi ekki verið útboðsskylt samkvæmt þágildandi lögum um opinber innkaup og sé því ekki um brot á þeirri löggjöf að ræða í þessu tilviki. Hins vegar þykir ljóst að ekki var farið eftir innkaupareglum Reykjavíkurborgar við gerð samninga um framkvæmdina.
Þetta kemur fram í áliti borgarlögmanns sem lagt var fyrir innkauparáð Reykjavíkurborgar í fyrradag.
Í álitinu bendir borgarlögmaður á að samkvæmt innkaupareglum Reykjavíkurborgar sé óheimilt að skipta upp samningum í því skyni að komast hjá útboðsskyldu. Með hliðsjón af gögnum sem embættis sankaði að sér þá telur það að ekki sé unnt að fullyrða að slíkt hafi verið gert af ásettu ráði enda liggi fyrir skýringar þess efnis að verkefnið sé þess eðlis að erfitt sé að sjá fyrirfram umfang þess og hvenær unnt hefði verið að vinna einstaka verkþætti.
Ljóst sé þó að í innkaupareglum Reykjavíkurborgar er ekki að finna heimild til þess að leggja slíkar forsendur til grundvallar undanþágu frá útboðsskyldu.
Samningum komið á með munnlegum hætti
Í álitinu er fyrst og fremst fjallað stuttlega um eftirlitshlutverk innkauparáðs samkvæmt innkaupareglum og samþykktum ráðsins, hlutverk borgarlögmanns og ábyrgð kaupenda á því að farið sé eftir innkaupareglum Reykjavíkurborgar. Vakin er athygli á að í álitinu var ekki lagt mat á réttmæti fjárheimilda eða fjárhagslegs umfangs endurbyggingarinnar enda nái eftirlitshlutverk innkauparáðs ekki til slíkra þátta.
Í innkaupastefnu Reykjavíkurborgar er mælt fyrir að við innkaup verði beitt útboðum, að eins miklu leyti og unnt er og hagkvæmt þykir og að ábyrgð á að innkaup séu í samræmi við reglur Reykjavíkurborgar sé á hendi viðkomandi sviðsstjóra.
Enn fremur kemur fram að engir skriflegir verksamningar liggi til grundvallar endurbyggingarinnar og aðeins séu til í einu tilviki gögn sem sýna fram á að samanburðartilboða hafi verið leitað. Verkið hafi aldrei farið í formlegt innkaupaferli heldur hafi samningum verið komið á með munnlegum hætti.
Fullnægjandi upplýsingar lengi að berast
Í svari borgarlögmanns við fyrirspurn Kjarnans varðandi ástæðu þess hversu langur tími leið þar til álitið lá fyrir þá vitnar hann í álitið sjálft. „Í því skyni að uppfylla rannsóknarskyldu óskaði borgarlögmaður eftir samantekt og upplýsingum um framkvæmdina frá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar.
Frá því að embætti borgarlögmanns hóf vinnslu 21. ágúst 2017 við gerð umbeðins álits hafa ýmis gögn og upplýsingar borist frá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar sem hafa þó ekki dugað til að unnt sé að leggja mat á fyrirliggjandi álitaefni.
Því hefur verið óskað ítrekað eftir nánari úrvinnslu þeirra á tímabilinu og var það fyrst í þessum mánuði sem embættinu bárust nægilegar upplýsingar til að leggja mat á umrædd álitaefni,“ segir í álitinu.