Fjögur af hverjum fimm fyrirtækjum á Íslandi hafa orðið fyrir svokallaðri veiðipóstaárás, „phising“ á ensku, á síðastliðnum tólf mánuðum. Í slíkum netárásum reyna tölvuþrjótar m.a. að fá móttakendur tölvupóstsins til að senda sér viðkvæmar upplýsingar eins og lykilorð starfsmanna eða þá að fórnarlömbin eiga að smella á hlekki í póstinum, sem leiða viðtakanda á allt annan og hættulegri stað en hlekkurinn gaf tilefni til. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Þetta kemur fram í niðurstöðum viðhorfskönnunar Deloitte á Íslandi um netöryggismál fyrirtækja. Þorvaldur Henningsson, yfirmaður netvarnarþjónustu Deloitte á Íslandi segir í samtali við Morgunblaðið að árásir að þessir gerð séu mjög mismunandi að gerð og gæðum. Afleiðingarnar geta hins vegar oft verið mjög alvarlegar. Því sé mikilvægt að fyrirtæki hugi vel að því hvernig best sé að verjast árásum af þessu tagi.
Fræðsla starfsmanna mikilvæg
Þorvaldur segir það skipta mestu máli að starfsfólk sé vel upplýst um það hvernig veiðipóstar líti út sem og að fólk sé almennt vel vakandi fyrir því hvort tölvupóstar þeirra séu frá réttum aðilum. „Það fæðist enginn með þekkingu á því hvernig á að greina veiðipóst frá öðrum pósti.“ segir Þorvaldur. „Grundvallaratriði er að maður þarf að ávallt að vera mjög vakandi í þessum efnum og skoða allan tölvupóst sem maður fær með það í huga hvort um svikapóst sé að ræða eða ekki,“
Hann segir það í sjálfu sér ekki koma sér á óvart að svona hátt hlutfall, 80 prósent, íslenskra fyrirtækja hafi orðið fyrir veiðipóstaárásum. „Þessar sendingar geta verið allt frá því að vera með lélegu málfari og stílaðar á milljónir manna í einu og upp í það að einblínt sé kannski á starfsmenn eins fyrirtækis og þá á nokkuð góðri íslensku,“ segir Þorvaldur.
Ef smellt er á hlekki í veiðipóstum er komin möguleika á tölva starfsmannsins verði tekin yfir af tölvuþrjóti. Þá verður tölvan fyrir gagnagíslatöku og getur jafnvel dreift smitinu á aðrar tölvur fyrirtækisins. Þorvaldur segir það því mjög alvarlegt mál ef starfsfólk lætur glepjast af veiðipóstaárásum og því sé mikilvægt að starfsfólk sé frætt. Deloitte hefur aðstoðað fyrirtæki í þessum efnum, mætt á vinnustaði og haldið fyrirlestra eða sett af stað gervi-árás til kanna hvort starfsmenn fyrirtækja láti gabbast. Í einni svoleiðis gervi-árás féllu 60 prósent starfsmannanna í gildruna.