Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður Vinstri grænna lagði fram þingsályktunartillögu í síðustu viku þar sem lagt er til að Alþingi feli ríkisstjórninni að skipa starfshóp til þess að kanna með heildrænum hætti stöðu barna á Íslandi tíu árum eftir hrun. Rósa Björk var fyrsti flutningsmaður en ásamt henni voru flutningsmenn úr öllum þingflokkum.
Samkvæmt þingsályktunartillögunni skal starfshópurinn hafa samráð við umboðsmann barna, Barnaverndarstofu, UNICEF á Íslandi, Velferðarvaktina, Samband íslenskra sveitarfélaga og önnur félagasamtök og stofnanir sem málefnið snertir. Starfshópurinn á að skila inn skýrslu til ríkisstjórnarinnar innan sex mánaða frá skipun starfshópsins en skýrslan skal vera kynnt Alþingi eigi síðar en fyrir lok 149. löggjafarþings.
Mikið var rætt í upphafi hrunsins um möguleg langtímaáhrif þess á börn. Í greinargerð tillögunnar kemur fram að þess vegna sé talin full ástæða til þess að skoða stöðu barna á þessu tíu ára tímabili, 2008 til 2018, og meta áhrif hrunsins á stöðu þeirra og líðan. Skoða þurfi stöðu út frá félagslegum, sálrænum og efnahagslegum áhrifum, sem og hvar þjónusta við börn hafi verið skorin niður og hvort úrbætur hafi átt sér stað á þessu sviði. Slík könnun nái jafnframt til víðtækra þátta og þurfi sérstaklega að hafa í huga ýmsar breytur, svo sem kyn, uppruna, fötlun, efnahagslega stöðu, búsetu, fjölskyldumynstur o.s.frv.
Í greinargerðinni kemur jafnframt fram að í athugasemdum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna er meðal annars komið inn á áhrif efnahagshrunsins á börn og fjölskyldur þeirra, sérstaklega efnaminni fjölskyldur. Enn fremur er í athugasemdunum lögð áhersla á mikilvægi þess að með vænkandi hag ríkissjóðs yrði leiðréttur sá niðurskurður sem var á sviði velferðar-, heilbrigðis- og menntamála í kjölfar hrunsins.
Staða barna þremur árum eftir hrun
Í september 2012 voru birtar niðurstöður úr könnun sem gerð var 2011 um stöðu barna í áhættuhópum á Íslandi sem Velferðarvaktin hafði forgöngu um. Velferðarvaktin á rætur að rekja til ársbyrjunar 2009 þegar þáverandi ríkisstjórn samþykkti að stofna sérstaka velferðarvakt sem ætlað var að fylgjast með félags- og fjárhagslegum afleiðingum bankahrunsins.
Í niðurstöðum könnunarinnar kom fram að börn sem stóðu illa fyrir kreppu stóðu enn verr árið 2011, en spurðir voru starfsmenn í heilsugæslustöðvum, grunnskólum og barnaverndarnefndum um land allt. Samkvæmt könnuninni birtist verri staða einna helst í aukinni fátækt, ýmsum skerðingum á þjónustu, minna fjármagni til íþróttaiðkunar, í því að börn hætta í mataráskrift í skólum, minni sálfræðiaðstoð og miklum skuldum heimilanna.
Afleiðingar þess að búa við þröngan fjárhag og óvissu geta samkvæmt könnunni verið félagleg einangrun og líkamleg vanlíðan sem á sér andlegar orsakir. Því var bent á í niðurstöðum könnunarinnar hversu mikilvægt það er að aðgengi að sál- og geðheilbrigðisþjónustu sé greiður. Enn fremur kom fram að staða fjölskyldna, þar sem foreldrar eru af erlendum uppruna eða einstæðir, virðist vera sérstaklega viðkvæm í þessu samhengi.
Aukið álag á barnaverndarnefndir
Samkvæmt Hagstofunni höfðu barnaverndarnefndir árið 2007 afskipti af 3.852 börnum sem nemur 4,2 prósent af heildarfjölda barna 18 ára og yngri. Árið 2016 hafði barnavernd afskipti af 6,2 prósent barna á sama aldursbili, eða sem nam 5.260 börnum. Yfir sama tímabil jókst einnig fjöldi barna sem voru vistuð utan heimilis. Árið 2005 voru alls 349 börn vistuð utan heimilis en árið 2016 voru í heildina 401 barn vistað utan heimilis.
Eftir hrun var fjöldi atvinnulausra á aldrinum 15 til 19 ára fjórfalt meiri en fyrir hrun bankanna. Í janúar 2011 voru rúmlega 400 börn á þessum aldri án atvinnu. Árið 2017 störfuðu 19.804 eða 25 prósent barna á íslenskum vinnumarkaði. Hins vegar hefur heildarfjöldi starfandi barna á vinnumarkaði dregist nokkuð saman frá árinu 2007 þegar hann var 30 prósent.
Bætt staða heimila
Heimilum sem fá greidda fjárhagsaðstoð hefur fækkað frá árinu 2013 eftir að hafa fjölgað mikið eftir 2007, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Árið 2017 fengu 5.142 heimili fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og hafði heimilum sem þáðu slíkar greiðslur fækkað um 12,2 prósent frá árinu áður. Breyting í fjölda heimila sem fá fjárhagsaðstoð hefur haldist í hendur við þróun atvinnuleysis eins og kemur fram í grafinu hér að neðan.
Frá árinu 2016 til 2017 lækkuðu útgjöld sveitarfélaganna vegna fjárhagsaðstoðar um 504 milljónir króna eða 13,6 prósent. Af þeim heimilum sem fengu mesta fjárhagsaðstoð árið 2017 voru heimili einstæðra barnlausra karla 43,5 prósent, síðan heimili einstæðra kvenna með börn 23,4 prósent og heimili einstæðra barnlausra kvenna 22,1 prósent.
Vantar heildstætt mat
Í greinargerð fyrrnefndar þingsályktunartillögu kemur fram að nú þegar tíu ár eru liðin frá efnahagshruninu þá sé ástæða til að kanna hvort börn hafi fengið og notið bætts efnahagsástands landsins. Til séu ýmsar rannsóknir og greiningar sem gerðar hafa verið á stöðu og líðan barna á undanförnum árum, en þó virðist aldrei hafa verið lagt heildstætt mat á með þeim hætti sem þingsályktunartillagan leggur til. „Þá má þess geta að barnaréttarnefndin hefur ítrekað bent á að það skorti heildstætt kerfi um söfnun, vinnslu og greiningu gagna um stöðu barna hér á landi, enda er slík gagnasöfnun forsenda þess að raunverulega sé hægt að vinna að auknu jafnræði meðal barna á Íslandi,“ segir í tillögunni.