Heildarlosun koltvísýrings frá hagkerfi Íslands hefur aukist töluvert frá árinu 2012 samkvæmt nýju losunarbókhaldi. Þær niðurstöður gefa aðra mynd en skýrslan um losun Íslands, sem Umhverfisstofnun sendir árlega til Alþjóða Loftlagsráðsins (UNFCCC).
Hagstofa Íslands birti nýtt losunarbókhald í dag fyrir hagkerfi Íslands frá árinu 1995 til 2016, þetta bókhald nefnist AEA (Air Emission Account). Það bókhald gefur aðra mynd en NIR (National Inventory Report) skýrslan um losun Íslands, sem Umhverfisstofnun sendir til Alþjóða Loftslagsráðsins.
NIR skýrsla Umhverfisstofnunar sýnir m.a. losun sem verður vegna landnotkunar, breytinga í landnotkun og skógrækt. Losun vegna landnotkunar er hins vegar sleppt í AEA bókhaldinu þar sem landsvæði telst ekki sem hluta af hagkerfinu. Ef losun vegna landnotkunar er dregin frá heildarlosun í NIR skýrslunni þá stendur eftir notkun hagkerfisins, losun vegna eldsneytisbruna, orkuvinnslu, efnisnotkunar í iðnaði, landbúnaði og förgunar á sorpi. Þeir þættir eru einnig í AEA bókhaldinu.
Heildarlosun hefur aukist frá árinu 2012
Samkvæmt NIR skýrsunni hefur heildarlosun Íslands á koltvísýring, án landnotkunar (LULUCF) dregist saman miðað við árið 2008 og haldist nokkuð óbreytt frá árinu 2010. Heildarlosun koltvísýrins frá hagkerfi Íslands reiknað í AEA skýrslunni hefur hinsvegar aukist mikið frá árinu 2012 eins og má sjá á grafinu. Heildarlosun hagkerfis Íslands er því mun meiri en tölur NIR skýrslunnar gefa til kynna.
AEA bókhaldið nær yfir rekstur íslenskra fyrirtækja og fólks sem hefur búsetu á Íslandi óháð landsvæði Þetta þýðir að losun frá flugi og annarri starfsemi íslenskra flugfélaga erlendis er bókfærð á meðan rekstur erlendra flugfélaga hérlendis telst ekki með. Á svipaðan hátt er losun vegna reksturs íslenskra skipafélaga tekin inn óháð siglingarleið, en rekstur skipa erlendra aðila sem kaupa eldsneyti hérlendis kemur ekki inn í heildarlosunina.
Losun koltvísýrings 1174 kílótonnum meiri árið 2016 en NIR skýrslan sýnir
Leiðréttur samanburður milli NIR skýrslunnar og AEA bókhaldsins fæst ef starfsemi Íslendinga erlendis er dregin frá AEA samtölunni, og erlendri starfsemi hérlendis bætt við. Þegar leiðrétt hefur verið fyrir muninn á milli skýrslnanna þá er losun hagkerfisins á Íslandi enn þá mun meira en talið var eða 1174 kílótonnum meira árið 2016 en sú losun sem NIR- skýrsla ( án LULUCF) sýnir. Samanburðurinn sýnir að losunin hefur verið meira en talið var alveg frá árinu 1995.
Tölur Hagstofunnar sýna að eldsneyti sem selt er á Íslandi til samgangna milli Íslands og annarra landa hafi aukist töluvert á síðustu árum, sem er í samræmi við öran vöxt í flugrekstri og innflutningi.
Málmiðnaðurinn losar mestan koltvísýring
Árið 2016 losaði málmiðnaðurinn mest af koltvísýring á Íslandi eða um 1.684 kílótonn af CO2 í andrúmsloftið, vegasamgöngur losuðu 884 kílótonn, fiskveiðar 516 kílótonn en landbúnaður 6,8 kílótonn.
Á hinn bóginn var mesta losun metans (CH4) í umhverfið frá landbúnaði eða 14,466 tonn árið 2016 og förgun sorps losaði 8863 tonn af metani.