Persónuvernd sendi bréf til Viskubrunns ehf. þann 17. október 2018 þar sem tilkynnt var að Persónuvernd hafi ákveðið að hefja athugun á því hvort birting skattskrár í heild á vefsíðunni Tekjur.is samrýmist lögum nr.90/2018 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga en á síðuna er að finna upplýsingar um skattstofna og tekjur þeirra sem greiða skatta hérlendis 18 ára og eldri.
Í svari Viskubrunnar ehf. við bréfi Persónuverndar kemur fram að Tekjur.is telja sig standa á standi á traustum lagalegum grundvelli. Viskubrunnur telur að sú birting upplýsinga úr skattskrám sem fram fer á vefnum www.tekjur.is sé heimilt á grundvelli sérákvæðis 2.mgr. 98. gr laga nr.90/2003 og að hún falli þar með utan gildissviðs persónuverndarlaga. Þegar af þeirri ástæðu hefur Persónuvernd engar valdheimildir til afskipta af þeirri upplýsingamiðlun sem fer á síðunni samkvæmt bréfinu.
Viskubrunnur ehf. telur að sú birting upplýsinga sem fram fer á síðunni Tekjur. is sé ekki einungis heimil á grundvelli þeirra sjónarmiða koma fram í ákvæði laga nr.90/2003 heldur einnig er heimilt veitt í lögum nr.90/2018 þar sem tekið er fram að takmarka eigi ekki aðgang að grundvelli lagaákvæða um upplýsingarétt almennigs, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr.90/2018. Viskubrunnur ehf. sækir birtingu upplýsinganna einnig stoð í 1. mgr. 6.gr. laga nr. 90/2018. Í því ákvæði er að finna sérstaka reglu um afmörkun á gildissviði persónuverndarlaga gagnvart tjáningu sem stunduð er í þágu fjölmiðlunar, lista eða bókmennta.
Tekjur.is
Upplýsingar um það hvernig tekjur fólks skiptast, og tæmandi upplýsingar um hverjir borga hvað í skatta er hægt að finna í svokallaðri skattskrá. Í vor var skattskráin fyrir árið 2017 gerð opinber. Í henni er að finna niðurbrot á öllum skattgreiðslum einstaklinga – tekjuskatt, útsvar og fjármagnstekjuskatt – vegna ársins 2016. Því er um eldri upplýsingar að ræða en t.d. þær sem hægt var að lesa um í síðasta Tekjublaðið Frjálsrar verslunar, en ítarlegri þar sem þær sýna hvernig tekjur viðkomandi hafði.
Þessum upplýsingum safnaði vefurinn Tekjur.is saman og gerði þær aðgengilegar á stafrænu formi. Vefurinn fór í loftið þann 12. október síðastliðinn og þar birtust upplýsingar um alla Íslendinga sem eru 18 ára og eldri, og yngri en 100 ára, með sama hætti og þær birtast í skattskránni.
Kjarninn fjallaði ítarlega um efni skattskráarinnar í fréttaskýringu sem birtist sl. 12. október. Þar kom meðal annars fram að 137 Íslendingar voru með fjármagnstekjur yfir 100 milljónum króna á árinu 2016, 54 voru með yfir 200 milljónir króna í slíkar tekjur og 33 þénuðu yfir 300 milljónir króna á þann hátt. Alls voru fjármagnstekjur 22 einstaklinga yfir 400 milljónir króna á árinu 2016 og 16 voru með yfir hálfan milljarð króna í slíkar tekjur.
Krafist lögbanns og formleg kvörtun barst til Persónuverndar
Ingvar Smári Birgisson, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, gerði kröfu um að lögbann væri sett á vefinn Tekjur.is þann 15. október. Auk þess barst formleg kvörtun til Persónuvernd frá almannatenglinum Björgvini Guðmundssyni vegna málsins.
Í yfirlýsingu frá Ingvari Smára segir: „Ég tel að birting fjárhagsupplýsinga allra skattgreiðenda á vefnum Tekjur.is feli í sér ómaklega aðför að stjórnarskrárvörðum rétti almennings til friðhelgis einkalífs. Með starfrækslu vefsins er að mínu mati farið út fyrir heimildir þeirra ákvæða sem hafa legið að baki opinberri umfjöllun um laun og skattgreiðslur Íslendinga í gegnum árin. Í ljósi þess tel ég rétt að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu leggi lögbann við vinnslu Viskubrunns ehf. á fjárhagsupplýsingum Íslendinga og að félaginu verði gert að afmá upplýsingarnar af vefsíðu sinni, tekjur.is“
Miðla upplýsingum til almennings
Í bréfinu til Persónuverndar kemur fram að Viskubrunnur ehf. líti svo á að sú birting sem fram fer á vefsíðunni tekjur.is eigi sér einvörðungu stað í því skyni að miðla almenningi með skilvirkum hætti staðfestum upplýsingum sem skattayfirvöld hafa þegar birt í skattskrá og allir borgarar landsins hafa aðgang að. Birtingu upplýsinga er ætlað að stuðla að umræðu um tekjuskiptingu í samfélaginu og framlagi einstaklinga til uppbyggingar þess sem hlýtur að teljast grundvallaratriði í lýðræðislegri umræðu segir í svari Viskubrunns.
Birting þessara upplýsinga er því í meginatriðum ekkert frábrugðin miðlun upplýsinga af þeim toga sem svonefnd tekjublöð Frjálsrar verslunar og DV hafa gengist fyrir og Persónuvernd hefur ekki talið sig hafa heimildir að lögum til að hafa afskipti af, sjá hér til hliðsjónar mál nr.2017/1068 og 2017/1001. Telur Viskubrunnur ehf. að öll þau rök sem ákvarðanir Persónuverndar í ofangreindum málum um frávísun málanna byggðust á eigi að breyttu breytanda við um þetta mál.
Sérákvæði sem ganga framar ákvæðum persónuverndarlaga
Í bréfinu er vísað í 1. mrg. 5 gr persónuverndarlaga þar sem kveðið er sérstaklega á um að sérákvæði annara laga um vinnslu persónuupplýsinga sem sett eru innan ramma reglugerðarinnar gangi framar ákvæðum persónuverndarlaga. Að mati Viskubrunnar er ljóst að ákvæði lokamálsliðar 2.mgr. gr. 98 gr. felur í sér slíkt sérákvæði enda er þar sérstaklega kveðið á um „heimil [sé] opinber birting á þeim upplýsingum um álagða skatta sem fram koma í skattskrá svo og útgáfa þeirra upplýsinga í heild eða að hluta.“
Ákvæði lokamálsliðar 2. mgr. 98 gr felur í sér sérákvæði af því tagi sem vísað er til í 1. mgr, 5 gr. persónuverndarlaga enda tilgreinar það sérstaklega að opinber birting á upplýsingum um álagða skatta úr skattskrá sé heimil svo og útgáfa þeirra upplýsinga í heild eða hluta. Samkvæmt bréfinu er þá enginn vafi á í því að umrætt ákvæði sé innan þess ramma sem reglugerð ESB setur enda er þar mælt sérstaklega fyrir um að aðildarríkin geti vikið frá reglugerðinni meðal annars í þágu tjáningarfrelsis, fjölmiðlunar og reglna um aðgang almennings að opinberum gögnum eins og síðar verður rakið.
Lög nr. 90/2018 takmarka ekki aðgang á grundvelli lagaákvæða um upplýsingarétt almennings samkvæmt bréfinu
Í bréfinu er einnig vísað til laga nr.90/2018 þar sem fram kemur að takmarka eigi ekki aðgang á grundvelli lagaákvæða um upplýsingarétt almennings, sbr. 2. mgr. 5.gr. laga nr.90/2018. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum nr.90/2018 kemur fram að í ákvæðinu sé fjallað um gildissvið laganna gagnvart öðrum lögum. Bent er á að ákvæði frumvarpsins séu víðtæk og almenns eðlis í þeim skilningi að þau taka til hvers kyns vinnslu persónuupplýsinga hvar og hvernig sem hún fer fram, með þeim frávikum sem fram koma í frumvarpinu. Af þeim sökum þykir rétt að taka fram að frumvarpið taki jafnframt til meðferðar og vinnslu slíkra upplýsinga sem fram fer samkvæmt öðrum lögum nema þau lög tilgreini annað sérstaklega. Þannig geti sérákvæði annarra laga gengið framar þessum reglum á grundvelli almennra sjónarmiðu um „Lex specialis“. Þó sé tekið fram að sérlög verði að vera innan þess ramma, sem reglugerð ESB setur, þ.e. að þau fari ekki gegn ákvæðum hennar.
Í bréfinu er fjallað um það að í lýðræðisríkjum er það yfirleitt talið grundvallarforsenda fyrir því að efnisleg lýðræðisleg umræða geti átt sér stað um starfsemi stjórnvalda og gerð samfélagsins að almenningur eigi rétt til aðgangs að upplýsingum frá stjórnvöldum. Í reglugerðinni er gengið út frá því að aðildaríkin geti dregið mörkin milli upplýsingaréttar almennings og persónuverndar með ólíkum hætti. Í ákvæði 86.gr., sbr og 15 lið aðfararorða er hins vegar lag til grundvallar að ef gögn sem falla undir upplýsingarett almennings hafa jafnframt að geyma persónuupplýsingar geti aðildarríki að ósekju veitt aðgang að slíkum upplýsingum, án þess að það fari í bága við ákvæði reglugerðinnar um persónuvernd.
Skattsjóri hefur þegar birt skattskrá
Samkvæmt bréfinu falla einnig ákvæði lokamálsliðar 2. mgr. 98 gr. laga nr. 90/2003 undir þau sjónarmið sem lýst var hér að ofan. Enda er þarna um að ræða sérstakt ákvæði um upplýsingarétt almennings sem gengur raunar lengri en ákvæði upplýsingalaga þar sem í 2.mgr. 90 gr. er mælt fyrir um skyldu ríkisskattsjóra til að birta skattskrána að eigin frumkvæði. Þessi skilningur á ákvæðinu hefur nýverið verið staðfestur af hálfu ríkisskattstjóra sbr. frétt Morgunblaðsins frá 17. október sl. en þar er haft eftir ríkisskattstjóra að samkvæmt áralangri framkvæmd geti hver sem er fengið skattskrá allra Íslendinga í heild afhenta frá ríkisskattsjóra.
Við afmörkun á gildissviði lagaákvæða um upplýsingarétt gagnvart reglum um persónuvernd verður jafnframt að hafa í huga að almennt er ekki hægt að líta svo á að upplýsingar sem gerðar hafa verið opinberar með lögmætum hætti séu upplýsingar um einkamálefni sem óheimild er að greina frá. Ótvírætt er og óumdeild að skattstjóri hafði þegar birt sksattskrá á starfsstöð sinni. Því er heimild að birta upplýsingarnar.
Upplýsingarnar eru unnar í þágu fjölmiðla
Viskubrunnur ehf. telur að sú birting upplýsinga sem fram fer á síðunni tekjur.is sé ekki einungis heimil á grundvelli þeira sjónarmiða koma fram í ákvæði laga nr.90 2003 eru sérákvæði sem ganga framar ákvæðum persónuverndarlaga og lög nr. lög nr.90/2018 takmarka ekki aðgang að grundvelli lagaákvæða um upplýsingarétt almennigs, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr.90/2018. Heldur að birtingin sæki einnig stoð í 1. mgr.6gr. laga nr. 90/2018. Í því ákvæði er að finna sérstaka reglu um afmörkun á gildissviði persónuverndarlaga gagnvart tjáningu sem stunduð er í þágu fjölmiðlunar, lista eða bókmennta.
Í bréfinu kemur fram að upplýsingarnar sem birtast á tekjur.is gefa enn fremur heildræna mynd af tekjuskiptingunni í samfélaginu, ólíkri skattbyrði launa- og fjármagstekna sem jafnt fjölmiðlar sem þáttakendur í hinni samfélagslegu umræðu geta nýtt sér og vísað til
Í athugasemdum við ákvæði 6.gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 90/2018 en þar segir: „Með tilliti til mikilvægis réttarins til tjáningarfrelsis í hverju lýðræðisþjóðfélagi sé nauðsynlegt að túlka hugtök vítt í tengslum við það frelsi svo sem fréttamennsku.“