Hæstiréttur staðfesti í gær úrskurð Landsréttar þar sem kröfu Ólafs Ólafssonar var hafnað um að landsréttardómarinn Vilhjálmur H. Vilhjálmsson viki sæti í máli hans.
Vilhjálmur og meðdómarar hans í Landsrétti höfnuðu því með úrskurði sínum þann 4. október síðastliðinn að Vilhjálmur væri vanhæfur til að dæma í áfrýjuðu máli um endurupptöku Ólafs Ólafssonar.
Vilhjálmur er dómari í máli sem áfrýjað var til Landsréttar þar sem tekist er á um kröfu Ólafs um endurupptöku á þætti hans í Al Thani-málinu. Ólafur Ólafsson krafðist þess að Vilhjálmur viki sæti.
Í dómi Hæstaréttar kemur fram að það eitt valdi ekki vanhæfi dómara til meðferðar einkamáls þótt hann hafi áður dæmt um annað sakarefni í máli, sem aðili fyrrnefnda málsins hefur átt aðild að.
„Því síður leiðir það eitt og sér til vanhæfis dómara til meðferðar máls þótt einhver honum nákominn hafi áður komið að rannsókn eða úrlausn annars sakarefnis sem tengst hefur aðila að málinu. Að þessu virtu verður staðfest sú niðurstaða hins kærða úrskurðar að vinna Finns Vilhjálmssonar við rannsókn á vegum rannsóknarnefndar Alþingis, sem fjallaði um þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA í einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands hf., og skýrslu nefndarinnar um rannsóknina leiði ekki til þess að Vilhjámi H. Vilhjálmssyni beri að víkja sæti sem dómari í máli því sem til úrlausnar er fyrir Landsrétti,“ segir í dómnum.
Krafa Ólafs var byggð á ákvæði í lögum um meðferð einkamála sem kveður á um að dómari sé vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru „önnur atvik eða aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa.“
Í því samhengi var vísað til þrenns. Í fyrsta lagi myndi Vilhjálmur vera náinn vinur Markúsar Sigurbjörnsson, sem var einn dómenda í Al Thani málinu og sat í forsæti í dóminum.
Í öðru lagi hefði sonur Vilhjálms, Ingi Freyr Vilhjálmsson blaðamaður, ritað tugi blaðagreina um Ólaf þar sem jafnan væri fjallað um hann á afar neikvæðan hátt.
Í þriðja lagi hefði annar sonur Vilhjálms, Finnur Vilhjálmsson, verið saksóknari hjá embætti sérstaks saksóknara en síðar ráðinn starfsmaður rannsóknarnefndar Alþingis sem rannsakaði sölu á eignarhlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. Finnur var annar höfundar skýrslu sem nefndin sendi frá sér þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að Ólafur hefði beitt stjórnvöld blekkingum. Erindi frá Ólafi vegna þeirrar málsmeðferðar allrar er nú til meðferðar hjá Mannréttindadómstól Evrópu.
Í tilkynningu frá Ólafi sem hann sendi frá sér í dag segir hann að honum finnst það afar óheppilegt að nú eigi að fara að dæma í máli hans, máli sem hefur tengingu við hrunið, og að dómarinn sé faðir blaðamannsins sem hafi haft það sem viðfangsefni um langt árabil að skrifa neikvæðar greinar um hann.
„Þá er mér fyrirmunað að skilja, í ljósi þessarar aðstöðu, hvers vegna Vilhjálmur kaus ekki strax að hafa ekki afskipti af málinu. Það eru jú fimmtán skipaðir dómarar við Landsrétt og jafnan þrír sem dæma í hverju máli. Það hefði verið einfaldasti hlutur í heimi að úthluta málinu til annars dómara í staðinn, án þess að í því fælist nokkur áfellisdómur. Þessi vinnubrögð eru ekki til þess fallin að auka traust mitt á dómurunum í máli mínu eða íslensku dómskerfi yfirleitt,“ segir hann.