Einstaklingum sem afplána dóm sinn með samfélagsþjónustu hefur fjölgað undanfarið en nú afplána um 200 einstaklingar refsidóma sína í samfélagsþjónustu í stað þess að sitja í fangelsi. Á sama tíma sitja 170 manns í fangelsi, sem þýðir að fleiri eru í samfélagsþjónustu en vistaðir eru í fangelsum landsins. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Unnt er að heimila þeim sem dæmdir hafa verið til árs fangelsisrefsingar eða minna að afplána dóminn með utan fangelsiskerfsins,með samfélagsþjónustu. Þetta á þó ekki við um kynferðisafbrotamenn og aðra sem taldir eru hættulegir umhverfi sínu. Einstaklingur sem sækir um og fær leyfi til að afplána í samfélagsþjónustu getur stundað fulla vinnu eða nám en notar frítíma sinn til að vinna launalaust í þágu góðra málefni. Svo sem fyrir Rauða kross Íslands, hjá sambýlum fatlaðra eða fyrir trúfélag sitt, svo eitthvað sé nefnt.
Hægt að gera betur
Páll Winkel fangelsismálastjóri segir í samtali við Morgunblaðið að samfélagsþjónustan hafi reynst vel. Aðeins 16 prósent þeirra sem afplána refsidóm sinn á þann veg brjóti af sér á ný. Einnig hafa verið auknir möguleikar til að afplána hluta fangelsisvistar í opnu fangelsi en það hefur einnig skilað árangri í því að menn brjóta síður af sér að lokinni afplánun.
„Við þurfum að hugsa um það hvernig líklegast er að menn geti staðið sig þegar þeir koma aftur út í samfélagið. Reynslan sýnir að það gerum við með því að loka menn inni í eins skamman tíma og mögulegt er.“ segir Páll.
Hann bendir á að maður sem fékk 8 ára fangelsisdóm hafi áður þurft að vera í lokuðu fangelsi í 7 ár. Nú sé hann þar í 2-3 ár, 3 ár í opnu fangelsi, 16 mánuði á áfangaheimilinu Vernd og svo það sem eftir er á heimili sínu með ökklaband. Þetta stendur þeim til boða sem standa sig vel.
„Við getum gert betur í þessu. Margir fangar eiga við fíknivandamál að stríða og við þurfum að bjóða upp á fleiri meðferðarúrræði fyrir þá,“ segir Páll.
Þingsályktunartillaga um betrun fanga
Í nýrri þingsályktunartillögu á Alþingi um betrun fanga er m.a. lagt til að kanna kosti aukins vægis samfélagsþjónustu og meta hvort rétt sé að dómstólar taki ákvörðum um slíka ákvörðun í stað Fangelsismálastofnunar. Þorsteinn Víglundsson lagði fram tillöguna nú á dögunum ásamt átta öðrum flutningsmönnum úr þingflokkum Viðreisnar, Pírata, Flokk fólksins og Samfylkingin.
Í tillögunni er lagt til að Alþingi feli dómsmálaráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og heilbrigðisráðherra að setja á fót starfshóp um mótun heildstæðrar betrunarstefnu í fangelsismálakerfinu. Í tillögunni er lagt til að nauðsynlegar breytingar verði gerðar á lögum og fjármagn lagt til þess að tryggja öllum föngum einstaklingsbundar meðferðar- og vistunaráæltun, bættan aðgang að menntun og heilbrigðisþjónustu og aukinn stuðning að afplánun lokinni. Starfshópurinn á að skila skýrslu með niðurstöðum eigi síðar en 1. maí á næsta ári.
Samkvæmt greinargerð þingsályktunartillögunnar er markmið betrunar að auka færni og lífsgæði fanga og sporna við frekari brotastarfsemi og endurkomu í fangelsi. Í greinargerðinni kemur fram að heildstæð betrunarstefna er ekki til staðar á Íslandi og óljóst að hvaða marki lögin stuðla að betrun, enda er aðgengi að námi og heilbrigðisþjónustu mismunandi á milli fangelsa og meðferðaráætlun einungis aðgengileg þeim föngum sem Fangelsismálastofnun telur nauðsynlegt að hljóti meðferð. Samkvæmt upplýsingum Fangelsismálastofnunar er endurkomutíðni fanga um 24 prósent sem er t.d. mun hærra en í Noregi.
Nauðsynlegt að bæta meðferð í fangelsum
Meðal þess sem lagt er til að starfshópurinn skoði er hvernig má bæta sálfræðileg og félagsleg meðferð í fangelsum, einnig skal auka aðgengi að réttri meðferð við fíknivandamálum og auka möguleika fanga til menntunar og atvinnu. Samkvæmt greinargerðinni hefur embætti umboðsmanns Alþingis ítrekað vakið athygli á nauðsyn þess að bætt verði úr geðheilbrigðisþjónustu við fanga og bent á að vistun fanga með alvarlegar geðraskanir í afplánunarfangelsum kunni að teljast brjóta gegn mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmálum.
Í greinargerðinni er auk þess er lagt mikil áherslu á að auka stuðning að lokinni afplánun. Í greinargerðinni segir að þegar líður að lokum afplánunar þarf að tryggja öllum föngum ráðgjöf og stuðning við húsnæðisleit og atvinnuleit og veita þeim aðgang að stuðningsneti til að aðlagast samfélaginu og koma undir sig fótum á ný. Slíkt stuðningsnet og ráðgjöf er til þess fallin að skila miklum árangri og auka öryggi og hagsæld samfélagsins alls.
Að lokum er tekið fram að ef takist ekki að bæta úr þessum málum er ekki einungis hætta á að endurkomutíðni standi í stað heldur aukast líkurnar á að þeir fangar sem ekki snúa aftur í fangelsi hljóti varanlegan skaða af vistinni, og jafnvel örorku, með tilheyrandi álagi fyrir heilbrigðiskerfið og almannatryggingakerfið.