Mikil aukning hefur verið í skráningu á heimagistingu á þessu ári eða um 76 prósent aukning. Á þessu ári hafa verið samþykktar 1860 skráningar á heimagistingu en á öllu síðasta ári var fjöldinn 1059. Aukning er rakin til aukins eftirlits Heimagistingarvaktarinnar á vegum Sýslimannsins á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu.
Síðasta sumar veitti ferðamálaráðherra sérstaka fjárveitingu upp á um 64 milljónir króna til Heimagistingarvaktarinnar til að efla eftirlit heimgagistingar og tryggð yrði rétt skráning. Heimgistingarvaktin fer með eftirlit yfir heimagistingu í landinu en talið er að heimagisting hafi allt að sjöfaldast frá árinu 2015.Í tilkynningu segir að frá miðjum september hefur Heimagistingarvaktin framkvæmt 136 vettvangsheimsóknir á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og á Suðurnesjum í kjölfar upplýsinga sem fram hafa komið í ábendinga- og frumkvæðiseftirliti með óskráðri skammtímaleigu.
Sektir upp á 40 milljónir króna
Í tilkynningunni kemur fram að á þessum tíma hefur lögregla stöðvað starfsemi þriggja rekstrarleyfisskyldra gististaða á höfuðborgarsvæðinu og óskað hefur verið eftir lögreglurannsókn og eftir atvikum lokun á átta rekstrarleyfisskyldum gististöðum utan höfuðborgarsvæðisins. Þá hefur 18 málum verið formlega lokið með álagningu stjórnvaldssekta og tugir mála eru til meðferðar vegna brota á skráningarskyldu sem verður að óbreyttu lokið með stjórnvaldssektum. Heildarupphæð fyrirhugaðra og álagðra stjórnvaldssekta vegna umræddra mála nemur um 40 milljónum króna.