Andri Már Ingólfsson, aðaleigandi Primera-samstæðunnar, hafnar því að ranglega hafi verið staðið að gerð ársreikninga félaga innan ferðaþjónustusamstæðunnar. Endurskoðendur sem hafa rýnt í ársreikninga félaganna telja vandséð að víkjandi lán sem Primera Air var veitt í fyrra og breytti neikvæðri eiginfjárstöðu í jákvæða, geti talist til eigin fjár félagsins. Þá segja þeir vafa leika á því hvort félaginu hafi verið heimilt að innleysa hagnað vegna sölu á vélum sem eru enn í smíðum og átti að afhend á næsta ári. Frá þessu er greint í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins í dag.
Óvæntur viðsnúningur
Endurskoðendur sem hafa rýnt í ársreikninga félaga innan Primera-samstæðunnar telja verulegan vafa leika á því að ársreikningar tveggja félaga, Primera Air ehf. og Primera Travel Group ehf., fyrir síðasta ár séu í samræmi við lög, reglur og góða endurskoðunarvenju. Af ársreikningi Primera Air fyrir síðasta ár að dæma batnaði fjárhagsstaðan umtalsvert á árinu, miðað við fyrri ár, en til marks um það fór eiginfjárhlutfallið frá því að vera neikvætt um 51 prósent í lok árs 2016 í það að vera jákvætt um 8,8 prósent í lok síðasta árs. Var eigið fé félagsins á sama tíma jákvætt um 4,6 milljónir evra.
Viðsnúningurinn kom þeim sem þekkja vel til mála á flugmarkaði nokkuð á óvart enda var árferðið á markaðinum afar erfitt á árinu. Hærra olíuverð, lægri flugfargjöld og aukinn launakostnaður bitnuðu á rekstri flugfélaga eins og rekstrartölur íslensku félaganna Icelandair Group og WOW air báru með sér. Hagnaður fyrrnefnda félagsins dróst saman um tæp 60 prósent á meðan síðarnefnda félagið tapaði um 2,4 milljörðum króna. Af ársreikningi Primera Air má ráða að einkum tvö atriði, nýtt víkjandi lán og söluhagnaður vegna Boeing-flugvéla, hafi að stórum hluta skýrt bætta eiginfjárstöðu félagsins. Áðurnefnt víkjandi lán upp á 20,9 milljónir evra, sem systurfélagið Primera Travel Group veitti Primera Air í fyrra, var fært á meðal eigin fjár í síðasta ársreikningi Primera Air og skýrir þannig bætta eiginfjárstöðu félagsins á milli ára.
Flokkast sem eiginfjárgerningur samkvæmt alþjóðlegum reikningskilastöðlum
Samkvæmt umfjöllun Markaðarins segja endurskoðendur félaganna hjá Deloitte að víkjandi lán frá tengdum aðila sem Primera Air veitt var í fyrra upp á 20,9 milljónir evra, sem breytti neikvæðri eiginfjárstöðu félagsins í jákvæða um 4,6 milljónir evra í árslok 2017, flokkist sem eiginfjárgerningur samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum. En án lánsins hefði eigið fé þess verið neikvætt um 16,3 milljónir evra í lok síðasta árs.
Þá segja þeir vafa leika á því hvort félaginu hafi verið heimilt að innleysa á síðasta ári söluhagnað vegna endursölu á Boeing-flugvélum sem eru enn í smíðum og verða afhentar í aprílmánuði árið 2019. Þá feli innleystur hagnaður á árinu 2017 upp á 13,3 milljónir evra vegna sölu á flugvélum, sem ekki var búið að afhenda, í sér breytingu á gangvirðismati þar sem um sé að ræða afleiðusamninga. Frá þessu greina heimildarmenn Markaðins.
Til viðbótar er það mat viðmælenda Markaðarins að sterk rök hafi staðið til þess að færa niður, að hluta eða öllu leyti, milljóna evra kröfur Primera Travel Group á hendur systurfélaginu Primera Air og móðurfélagi þess síðarnefnda, PA Holding, í ljósi bágrar fjárhagsstöðu félaganna. Rekstur Primera Air og erlendra dótturfélaga þess, Primera Air Nordic í Lettlandi og Primera Air Scandinavia í Danmörku, stöðvaðist sem kunnugt er í byrjun síðasta mánaðar þegar félögin voru tekin til gjaldþrotaskipta.
Neikvætt eigið fé árum saman
Primera Air hætti í október síðastliðinn starfsemi eftir fjórtán ár í rekstri og var flugfélagið, ásamt dótturfélögum sínum í Danmörku og Lettlandi, í kjölfarið tekið til gjaldþrotaskipta. Stjórnendur flugfélagsins sögðu að horfur á flugmarkaði hefðu farið hratt versnandi, með hækkandi olíuverði og lækkandi flugfargjöldum, og ekki hefði tekist að tryggja félaginu fjármögnun til langs tíma. Arion banki þurfti að færa niður lán og greiða út ábyrgðir fyrir á bilinu alls 1,3 til 1,8 milljarða króna vegna gjaldþrotsins en óvíst er hve miklar eignir munu finnast í þrotabúum félaganna.
Samkvæmt umfjöllun Markaðarins hefur eigið fé Primera Air hefur verið neikvætt svo árum skiptir en sem dæmi var það neikvætt um 22,1 milljón evra í lok árs 2015, en það ár tapaði félagið 12,6 milljónum evra, og neikvætt um 17,1 milljón evra í árslok 2016. Athygli vekur að þrátt fyrir langvarandi bágborna eiginfjárstöðu hafa endurskoðendur félagsins frá Deloitte engan fyrirvara gert um rekstrarhæfi þess í ársreikningunum. Erfið staða flugfélagsins hefur verið mörgum ljós um nokkurt skeið og segja viðmælendur Markaðarins á fjármálamarkaði að gjaldþrot félagsins hafi ekki komið eins og þruma úr heiðskíru lofti. Vitað hafi verið að svona gæti farið.